„Ég er klökk fyrir þeirra hönd“

Talið er að upptök eldsins hafi verið á neðstu hæð …
Talið er að upptök eldsins hafi verið á neðstu hæð í svefnherbergi. Guðlaugur Albertsson

„Þetta er alveg ótrúlegt, ég er bara klökk fyrir þeirra hönd,“ segir Lilja Sigurðardóttir um þann samhug sem ríkir í Patreksfirði eftir eldsvoðann í gær þar sem fjölskylda missti heimili sitt og allt innbú. Hún segir alla af vilja gerða til þess að koma fjölskyldunni til aðstoðar, en Lilja tók af skarið og hóf söfnun fyrir fjölskylduna. 

„Það var svo rosalega mikill samhugur í fólki og allir vildu hjálpa en það vissi eiginlega ekki hvert það átti að leita. Fjölskyldan er pólsk og þau þekkja ekkert rosalega marga Íslendinga, en ég og maðurinn minn vinnum með þeim og þekkjum þau vel. Ég ætlaði að fara til þeirra og athuga hvað þau vantaði helst en svo spann þetta svolítið upp á sig,“ segir Lilja.

Bæjarbúar á Patreksfirði leggjast allir á eitt

Fjölskyldan hefur fengið samastað þar til um miðjan ágúst, en þau verða í íbúð vinafólks síns sem er nú í sumarfríi. Leit að íbúð sem fjölskyldan getur verið í eftir þann tíma er þegar hafin.

Hjónin sem bjuggu í húsinu eiga tveggja ára gamlan son. Foreldrar mannsins bjuggu einnig í húsinu en eru í sumarfríi í Póllandi og voru því ekki á landinu þegar bruninn varð. Hins vegar eru móðir og yngri bróðir konunnar gestir hjá hjónunum í sumar, en þau starfa tímabundið á Íslandi.

Talið er að nánast allt innbú úr húsinu hafi eyðilagst í eldinum. Lilja segir að fjölskylduna vanti helst föt en einnig sé sárt að öll leikföng litla drengins séu ónýt.

„Við erum komin í samstarf við Rauða krossinn og það verður opið hús í húsi Rauða krossins hér á Patreksfirði kl. 18–20 í kvöld. Þar verður starfsmaður sem tekur á móti fólki og allir koma með það sem þeir geta en einnig verður söfnunarbaukur á svæðinu. Fjölskyldan fær svo aðgang að öllu í ró og næði og þau geta tekið það sem þau þurfa,“ segir Lilja.

Húsið er mjög illa farið og allt innbú er ónýtt

Í samtali við mbl.is segir Davíð Rúnar Gunnarsson, slökkvistjóri Vesturbyggðar, að hús fjölskyldunnar er sé mjög illa farið. „Neðri hæðin er illa farin vegna hita og elds og efri hæðin vegna hita og reyks. Ég held að það sé ekkert af innbúinu heilt, það er ósköp einfalt,“ segir Davíð Rúnar.

„Við vitum að eldsupptökin voru einhvers staðar á neðri hæðinni, sennilega í svefnherbergi, en lögreglan rannsakar nú eldsupptökin,“ segir Davíð Rúnar.

Hjónin urðu eldsins vör þegar reykskynjari í húsinu byrjaði að pípa. Davíð Rúnar segir það sé reykskynjaranum að þakka að ekki fór verr, en slökkvilið var fljótt að koma á staðinn og ráða niðurlögum eldsins.

Sjá fyrri fréttir mbl.is

Eldsvoði á Patreksfirði

Lilja Sigurðardóttir.
Lilja Sigurðardóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert