Ísraelskar vörur ekki sniðgengnar

Frá Gaza.
Frá Gaza. AFP

Tillaga Samfylkingar og Vinstri grænna í bæjarráði Hafnarfjarðar þess efnis að fordæma beri aðgerðir Ísraelsstjórnar á Gaza og sniðganga fyrirtæki og framleiðendur sem hagnast á stefnu Ísraels gegn Palestínu var felld á fundi fyrir helgi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar töldu það ekki hlutverk bæjarfélagsins að beita viðskiptaþvingunum.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs. Tillaga minnihluta Samfylkingar og Vinstri grænna hljóðaði á þessa leið: 

„Bæjarráð fordæmir aðgerðir Ísraelsstjórnar á Gazasvæðinu síðustu vikur og samþykkir að innkaupum sveitarfélagsins á vöru og þjónustu skuli hagað með tilliti til þess að sniðganga fyrirtæki og framleiðendur sem sýnt hefur verið fram á að hagnist á þeirri aðskilnaðarstefnu sem beitt er gagnvart palestínsku þjóðinni.

Bæjarráð samþykkir jafnframt að styrkja söfnun Rauða krossins vegna hjálparstarfs palestínska Rauða hálfmánans á Gaza um eina milljón króna.“

Styður aðgerðir stjórnvalda

Tillagan var felld með þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sem einnig létu bóka eftirfarandi:

„Meirihluti bæjarráðs fordæmir aðgerðir Ísraelsstjórnar á Gazasvæðinu síðustu vikur, sem bitnað hafa fyrst og fremst á óbreyttum borgurum á svæðinu. Meirihlutinn styður hvers konar aðgerðir íslenskra stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins sem leitt geta til varanlegrar lausnar í deilu þessara tveggja þjóða.

Það sé þó ekki hlutverk bæjarfélagsins að svo stöddu að beita viðskiptaþvingunum vegna þessara deilna, ekki frekar en þegar önnur átök eiga sér stað í heiminum eða þegar mannréttindi eru brotin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert