Keppa í alþjóðlegri lagasmíðakeppni

Jackie Tack.
Jackie Tack. Skjáskot úr myndbandinu

Íslendingurinn Haukur Hannes og skólasystir hans, hin sænska Jackie Tech, sendu inn lagið Better í alþjóðlega lagasmíðakeppnina ZDrummer 2 Songwriting Competition.

Haukur segir að um 1.350 lög hafi verið send inn í keppnina, en lagið þeirra sveiflast nú á milli þess að vera í 24. og 26. sæti. Það er kannski eðlilegt, því lagið er í skemmtilegum sveiflustíl. Á síðunni er hægt að greiða laginu atkvæði, en þau 15 lög sem fá flest atkvæði komast áfram í næstu umferð keppninnar. Hér er hægt að kjósa lagið þeirra.

„Við byrjuðum að vinna saman fyrir svona einu og hálfu ári,“ segir Haukur. „Við erum saman í námi og vildum skoða hvað við gætum gert við hennar tónlist.“ Þau eru bæði í námi sem kallast tónvinnslu við Linneus háskóla í Svíþjóð.

Vildi skilja gömlu kallana

„Við erum bæði í þessu námi, en Jackie er með söngbakgrunn. Hún ákvað að fara í þetta nám svo hún gæti skilið hvað gömlu kallarnir sem sjá um framleiðsluna eru að segja þegar þeir nota stór og flókin orð sem hún skildi ekki. Það er ágætis ástæða til að fara í nám,“ segir Haukur og hlær.

„Við höfðum aldrei tíma til að gera neitt úr þessu, því það var svo mikið að gera í skólanum. Það var ekki fyrr en við ákváðum að taka nokkur lög og búa til smáskífu. Hún kom þá til mín með hljóma og laglínur og bað mig að búa til lög úr því,“ segir hann. „Better er eitt af þeim.“

 „Lagið varð svo að skólaverkefni líka. Þegar við sáum að þessi keppni var að byrja þá hringdi ég í hana og sagði henni að við ætluðum að taka þátt,“ segir Haukur Hannes.

„Og núna erum við í 25. sæti,“ segir Haukur þegar blaðamaður ræddi við hann. „En þurfum að vera ekki neðar en í 15. til að komast áfram. Þar taka dómarar lögin til skoðunar.“

Allt „samplað“ nema söngurinn og gítar

Haukur segir alla tónlist, fyrir utan söng Jackie og gítar sem hann spilar á, vera búna til í tölvu. „Ég notaði bara fullt af sömplum, upptökur af einstaka nótum sem hljóðfæraleikarar hafa tekið upp og sett inn í tölvu. Þá er hægt að spila þessar nótur aftur seinna, og það er það sem ég gerði í þessu lagi,“ segir Haukur. „Mjög mikið af tónlist er búið til með þessum hætti í dag.“

Hann segist hissa á hversu oft hann hafi heyrt fólk raula stefið úr laginu, sem er óneitanlega grípandi. „Maður hefur lengi velt fyrir sér hvernig í ósköpunum sé hægt að búa til svona stef sem festist í hausnum á fólki. Ég veit ekki ennþá alveg hvernig ég gerði það, en einhvern veginn gerði ég það, og það er geggjuð tilfinning.“

Hann segir að keppnin sé ákveðin vinsældakosning, því hver og einn getur kosið lagið einu sinni á dag næstu 25 daga eða svo. „Þetta er það kannski allt saman. Ég held samt alveg að við eigum góðan möguleika. Ég hefði auðvitað ekki herjað á Jackie nema ef ég hefði haft einhverja trú á þessu,“ segir Haukur.

Töluverð sveifla í laginu

Haukur segir enga tilviljun að ákveðin sveifla sé í laginu. „Undanferið hef ég tekið upp rosalega mikið af „swing“ tónlist, þessi stefna er mjög vinsæl meðal margra. Ég er búinn að taka upp sveiflusveitir hérna í nágrenninnu, þar sem meðalaldurinn í bandinu var 74 ára, og yngsta konan sem söng var 54 ára og var kærasta trommuleikarans. Það er mjög mikið um fortíðarþrá til tímabils sveiflutónlistarinnar.“

Hann bendir á að menn á borð við Michael Bublé hafi gert mikið í að endurvekja sveifluna. „Mig langaði að blanda smá Bublé og Lily Allen inn í þetta lag, og smá Amy Winehouse. Ég veit ekki hvort ég hafi náð því alveg, en ég vona það allavega.“

Lagið Better á síðu þar sem hægt er að kjósa

Haukur Hannes.
Haukur Hannes.
Jackie Tack.
Jackie Tack. Skjáskot úr myndbandinu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert