Söfnun vegna brunans gengur vel

Söfnun handa fjölskyldunni gengur vel. Sérstakur styrktarreikningur verður kynntur á …
Söfnun handa fjölskyldunni gengur vel. Sérstakur styrktarreikningur verður kynntur á morgun. Ljósmynd/Guðlaugur Albertsson

Söfnun til styrktar fjölskyldunni sem missti heimili sitt í bruna á Patreksfirði í gær er í fullum gangi. Rauði kross Íslands hélt opið hús vegna þessa á milli klukkan 18-20 í kvöld.

„Þetta gekk ótrúlega vel. Fullt af fólki kom til að sýna samhug og fullt af dóti og fötum voru gefin. Svo var söfnunarbaukur sem eitthvað kom í,“ segir Lilja Sigurðardóttir, sem hóf söfnun vegna brunans, í samtali við mbl.is. Ekki fæst nákvæm upphæð á stöðu söfnunarinnar, en sérstakur styrktarreikningur verður opnaður á morgun.

„Þetta ætti að halda áfram næstu daga, sérstaklega þegar kemur í ljós hvort þau fái húsnæði,“ segir Lilja, en fjölskyldan gistir hjá vinafólki sínu, sem er í ferð til Póllands, fram í lok ágúst. Biður hún um að fólk verði með augun opin til að finna fjölskyldunni húsnæði.

„Þau eru búin að skoða gjafirnar og hafa þegið margt.“ Fjölskyldan hefur ekki fengið að skoða hvað bjargaðist og hvað skemmdist í brunanum. „Maður fær endalaust af símtölum. Til dæmis er fullt af fólki í Reykjavík sem ætlar að koma dóti vestur handa þeim. Svo hringdu tvær litlar stelpur frá Bolungarvík sem ætla að senda stráknum sem bjó í húsinu bangsana sína.“

Sjá frétt mbl.is: „Ég er klökk fyrir þeirra hönd“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert