Vilja endurskoða stjórnarsamstarf

Ingvar Smári Birgisson og Sigrún Jonny Óskarsdóttir eru nýr formaður …
Ingvar Smári Birgisson og Sigrún Jonny Óskarsdóttir eru nýr formaður og varaformaður Heimdallar.

Ingvar Smári Birgisson var endurkjörinn formaður Heimdallar á aðalfundi félagsins í kvöld, en engin mótframboð bárust. Þá var Sigrún Jonný Óskarsdóttir kjörin varaformaður.

Ásamt þeim voru kjörin í stjórn Ólafur Evert Úlfsson, Hildur Sveinbjörnsdóttir, Jónatan Jónatansson, Anton Reynir Hafdísarson, Arnór Bragi Elvarsson, Kjartan Örn Yeoman, Erla Hrönn Gylfadóttir, Hildur Helga Jónsdóttir, Orri Viðarsson, Bryndís Bjarnadóttir. 

Í stjórnmálaályktun sem nýkjörin stjórn sendi frá sér segir að það sé ekki lengur boðlegt að ungliðahreyfingin ein breiði út grunngildi flokksins, á meðan kjörnir fulltrúar hans skýli sér á bakvið raunhyggju stjórnmálanna. Þá segir að eftir það áfall sem flokkurinn beið í sveitastjórnarkosningunum í Reykjavík, sé mikilvægt að flokkurinn opni sig fyrir framfarasinnuðum og frjálslyndum gildum og styðji við ungliðahreyfinguna. 

Sýna ekki vilja til að auka frelsi almennings

Enn fremur segir í ályktuninni að Heimdallur hvetji til endurskoðunar á ríkisstjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn. Þingmenn Framsóknar og forystumenn hans hafi hvorki sýnt í orði né verki að þeir vilji auka frelsi almennings. 

„Mikið er að þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykkja 80 milljarða fjáraustur úr ríkissjóði til að kaupa góðvilja Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfi. Á meðan er samstarfsvilji Framsóknarflokksins ekki meiri en svo að formaður og þingmenn flokksins tala tæpitungulaust gegn frekari skattalækkunum, víðsýni í áfengis- og fíkniefnalöggjöf og ábyrgri stjórn í ríkisfjármálum. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að fórna frelsishugsjóninni og sínum helstu baráttumálum fyrir ríkisstjórnarsetu,“ segir í ályktuninni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert