Bíl stolið á stúdentagörðunum

Hilmar í bíl - Hilmar var nær dauða en lífi …
Hilmar í bíl - Hilmar var nær dauða en lífi þegar hann varð fyrir fjöllíffærabilun fyrir tveimur árum. Hann hefur verið tvö ár í endurhæfingu og var nýkominn með vinnu þegar bílnum hans var stolið. Hilmar Már Hálfdánsson

„Ég er búinn að vera að jafna mig eftir fjöllíffærabilun síðustu tvö árin. Þetta er fyrsta skiptið sem ég er í vinnu á þessum tveimur árum og þá þurfti þetta að gerast,“ sagði Hilmar Már Hálfdánsson í samtali við mbl.is, en hann varð fyrir því óláni í nótt að bílnum hans var stolið.

Bílnum var stolið fyrir utan heimili Hilmars á Klausturstíg í Reykjavík í nótt. „Ég kom úr matarboði klukkan níu í gærkvöldi. Bíllinn var á sínum stað þegar ég fór inn til mín. Svo ætlaði ég á fund klukkan tólf í dag og þá var hann horfinn. „Hvað er í gangi?“ hugsaði ég og leitaði að bílnum útum allt.“

Þjófnaðurinn kemur sérstaklega illa niður á Hilmari. „Ég er nýkominn af endurhæfingarlífeyri og á engan pening til að kaupa nýjan bíl. Ég þarf bílinn í vinnu.“

Um er að ræða Toyota Corolla bifreið af árgerð '97. „Þetta er algjör drusla þannig, en þetta er mjög spes bíll,“ segir Hilmar, en bíllinn er allur silfurlitaður að undanskilinni hvítri blæju. „Það eru ekki margir svona bílar á höfuðborgarsvæðinu.“ 

Númer bílsins er PT-725 og er þeim sem búa yfir upplýsingum um bílinn bent á að hafa samband við lögreglu. Hilmar bendir einnig á að ef sá sem tók bílinn vill hafa samband persónulega og skila bílnum án þess að lögregla komi að málum megi sá hinn sami hafa samband í gegnum póstfangið hilmarmarh@msn.com. „Fólk gerir mistök, ég skil það alveg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert