Ný samantekt rekur framgang ferðamálaáætlunar

Ferðamenn við Seljalandsfoss - Ný samantekt Ferðamálastofu segir m.a. að …
Ferðamenn við Seljalandsfoss - Ný samantekt Ferðamálastofu segir m.a. að innleiðing heilstæðra gæða- og umhverfisviðmiða í ferðaþjónustu sé ekki langt undan. Rax / Ragnar Axelsson

Ferðamálastofa er að leggja lokahönd á innleiðingu heilstæðra gæða- og umhverfisviðmiða fyrir íslenska ferðaþjónustu, sem kölluð hafa verið gæða- og umhverfiskerfi VAKANS. Þó er enn nokkuð í að það metnaðarfulla árangursmat ferðamálaætlunar náist að 85% fyrirtækja í ferðaþjónustu hafi innleitt gæðakerfið.

Þetta er meðal þess sem segir frá í nýrri samantekt sem Ferðamálastofa birti í dag um framgang ferðamálaáætlunar 2011-2020. Samantektin var unnin að beiðni Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra. 

Meginmarkmið VAKANS er að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi, einsog segir í samantekt Ferðamálastofu.

Umhverfishluti VAKANS er flokkunarkerfi en ekki vottunarkerfi eins og t.d. Norræni Svanurinn eða EarthCheck. Fyrirtæki sem eru með umhverfishluta VAKANS fá brons-, silfur- eða gullmerki eftir því hvaða árangri fyrirtækin hafa náð í umhverfismálum. Þá mun gæðakerfið flokka gististaði annars vegar með þar til gerðu stjörnukerfi og aðra ferðaþjónustu hins vegar. Flokkun gististaða er síðasti liðurinn í innleiðingu VAKANS og er gert ráð fyrir að hann verði kominn í notkun á árinu.

Ferðamálaætlunin kveður á um aðgerðir í þrettán liðum til að ná þeim meginmarkmiðum sem iðnaðarráðherra var falið að stefna að í ferðamálum af þingsályktun. Gæða- og umhverfiskerfi er einn þessara þrettán liða og fellur vinna að VAKANUM undir hann. Af öðrum liðum má nefna framkvæmdasjóð ferðamannastaða, kortlagningu á auðlindum og innviðum ferðaþjónustu á öllum landshlutum, verkskil hvers eru 1. nóvember næstkomandi, og stefnumörkun á rannsóknum í ferðamennsku, ásamt fleirum.

VAKINN hefur fengið afar jákvæð viðbrögð innan ferðaþjónustunnar, einsog fram kemur í samantekt Ferðamálastofu, sem hefur unnið að kerfinu í samráði við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands.

Samantekt Ferðamálastofu má nálgast hér, en þar er framgangur allra aðgerðarliða ferðamálaáætlunar rakinn ítarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert