Siðlausar og ósjálfbærar veiðar

Íslenski lundastofninn á verulega undir högg að sækja og glímir …
Íslenski lundastofninn á verulega undir högg að sækja og glímir við fæðuskort og ungadauða. mbl.is/Rax

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í gær að leyfa 5 daga lundaveiðitímabil í sumar. Náttúrustofa Suðurlands harmar þessa ákvörðun og segir veiðar á lunda, við þær aðstæður sem stofninn býr við núna, bæði ósjálfbærar og siðlausar.

Frumniðurstöður liggja nú fyrir úr tveimur hringferðum Náttúrustofu Suðurlands um Ísland, þar sem 12 lundabyggðir voru heimsóttar. Þetta er 5. árið sem lundavarp er vaktað með þessum hætti, en í fyrri ferðinni var skoðað hlutfall lundahola sem orpið var í, og í þeirri síðuru mældur varpárangur og fæðuval.

Ungadauði og fæðuskortur

Landinu er skipt í þrjú svæði og er nokkuð misjöfn afkoma eftir svæðum. Á Norðursvæði, sem nær frá Vigur að Hafnarhólma, hefur sjór helst hlýnað að sumarlagi. Þar verpur nú um 24% íslenska lundastofnsins og fer ábúð varphola vaxandi, var 81% að meðaltali í ár samanborið við 77% meðaltal sl. 5 ára. Fjöldi unga í holu var í meðallagi.

Á Suðaustursvæði, í Papey, hefur ríkt millibilsástand milli norður- og suðursvæða. Þar er kaldur ólagskiptur sjór og eina svæðið á seinni árum þar sem loðna er stór hluti fæðu lundans. Um 20% lundastofnsins verpur í Papey og þar hefur verið ungadauði árlega frá 2005. 

Á Suðursvæði, eða suður- og vesturlandi, ríkir Atlantssjór sem hefur hlýnað mest síðla vor og fram á haust. U.þ.b. 56% íslenska varpstofnsins verpur nú á þessu svæði og fer ört fækkandi. Ábúð varphola 2014 er allstaðar undir 55% og lægst í Vestmannaeyjum, 39%. Viðkoma á suðursvæðinu hefur verið lítil sem engin árin 2010-2014, að fyrrasumri undanskildu. Þó misfórst varp í Vestmannaeyjum það ár.

Fæðuskortur er mikill og áberandi fyrir lundann á Suðursvæði. Í ár afræktu lundar hátt hlutfall eggja, mest 87% í Vestmannaeyjum, og ungadauði er mikill. Talsverður sílaburður hefur verið í Akurey fyrir utan Reykjavík og var klakhlutfall mun hærra en annars staðar á svæðinu (91%). Ungadauði hefur hinsvegar verið samfelldur yfir ungatímann og verður viðkoma þar undir 0,2 unga á holu.

Helmingi færri pysjur en áður

Fram kemur í niðurstöðum úttektarinnar að meðallandsframleiðsla unga sé nú tæplega helmingur þess sem var fyrir fæðuskort. Veiðar á þessum stofni séu ósjálfbærar meðan ungaframleiðslan er svo lág. Nýliðun hefur verið neikvæð síðan árið 2002 eða í 12 ár og veruleg stofnfækkun átt sér stað.

„Það má varpa þeirri spurningu fram hvort núverandi veiðar séu í samræmi við alþjóðlega sáttmála og ábyrgð Íslands á þessum stofni, en hér verpur um 40% heimsstofnsins og er lundi algengasta fuglategund við Ísland.“

Lundaveiði verður heimiluð í 5 daga í Vestmannaeyjum í sumar. …
Lundaveiði verður heimiluð í 5 daga í Vestmannaeyjum í sumar. Náttúrustofa Suðurlands segir veiðarnar siðlausar og ósjálfbærar. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert