Útlendingastofnun gaf engin loforð

Stríðsástand ríkir nú á Gaza. Ramez Rassas, sem leitaði hælis …
Stríðsástand ríkir nú á Gaza. Ramez Rassas, sem leitaði hælis á Íslandi, var sendur héðan til Noregs í febrúar og þaðan til Gaza í mars. AFP

Palestínskur maður sem sótti um hæli hér á landi en var hafnað hafði áður sótt um hæli í Noregi, og tók Útlendingastofnun ákvörðun um að honum skyldi vísað þangað aftur á grundvelli Dyflinnarsamstarfsins. Þetta var gert eftir að stofnunin hafði fullvissað sig um að endursending til Noregs og aðstæður og málsmeðferð þar brytu ekki gegn íslenskum lögum, einkum 45. gr. laga um útlendinga, sem fjallar um endursendingar.

Þetta segir í fréttatilkynningu sem Útlendingastofnun sendi frá sér síðdegis í dag, í tilefni undirskriftasöfnunar og fjölmiðlaumfjöllunar um mál mannsins, Ramez Rassas. Þegar þetta er skrifað hafa 300 manns skrifað undir kröfuna.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasamstök eða önnur ríki hafa ekki gert slíkar athugasemdir við meðhöndlun hælismála í Noregi að ástæða sé til að ætla að norsk yfirvöld séu ekki í stakk búin til að veita hælisleitendum viðunandi aðbúnað og málsmeðferð,“ segir í yfirlýsingunni, sem undirrituð er af Kristínu Völundardóttur forstjóra Útlendingastofnunnar

Sendur til Gaza í mars

Í kröfu við undirskriftarsöfnunina segir um Rassas að hann hafi sloppið frá Gaza í mars 2009. „Hann komst til Noregs og bað um vernd sem flóttamaður, en var hafnað. Hann áfrýjaði og kærði ítrekað en allt kom fyrir ekki. Hann flýði áfram til Belgíu og svo til Íslands, því „þar voru ekki margir flóttamenn, svo kannski gætu þeir séð málið mitt skýrari augum." Það var borin von.

Þar segir jafnframt að vegna umsóknar Rassas í Noregi hafi hann verið dæmdur til að fara þangað aftur. „Hann sýndi þá íslenskum yfirvöldum fimm neitanir sem hann hafði fengið þar, og útskýrði að ef hann færi til Noregs yrði honum vísað beint til Gaza. Þessu trúðu íslensk yfirvöld ekki – norsk yfirvöld hlytu að vita hvað þau væru að gera. Þau myndu ekki senda nokkurn mann til Gaza eða á önnur hættusvæði.

Mánuði síðar var Ramez aftur í Gaza.

Ekki fleiri sendir til Palestínu að svo stöddu

Í yfirlýsingu Útlendingastofnunar segir að rangt sé að íslensk stjórnvöld hafi gefið loforð um að tryggt væri að hann yrði ekki sendur til Palestínu. „Maðurinn hafði fengið niðurstöðu um beiðni sína um hæli í Noregi á báðum stjórnsýslustigum þar í landi en sú málsmeðferð hófst á árinu 2008. Norsk lög heimila endurupptöku á fyrri ákvörðunum og var manninum bent á að hann gæti óskað slíkrar endurupptöku þar, hefði hann hug á því. Jafnframt var manninum leiðbeint um innihald 39. gr. málsmeðferðarreglna Mannréttindadómstóls Evrópu sem felur í sér að dómstóllinn getur á grundvelli beiðni þar um stöðvað flutning til bráðabirgða á meðan mál er tekið til athugunar.

Þegar manninum var kynnt niðurstaða Útlendingastofnunar í janúar 2014 um að honum skyldi vísað til Noregs vildi hann ekki nýta rétt sinn til að kæra ákvörðunina til innanríkisráðuneytisins. Flutningur til Noregs fór því fram í febrúarlok.

Stríðsástand hefur nú ríkt á Gasa frá í byrjun júlí 2014 en engin lagaleg úrræði eru til staðar sem gera Útlendingastofnun kleift að veita einstaklingum eða hópum hæli, sem staddir eru erlendis. Aftur á móti mun Útlendingastofnun ekki taka neinar ákvarðanir um endursendingar til Palestínu að svo stöddu og mál hælisleitenda þaðan verða afgreidd svo fljótt sem verða má, eins og háttar til um mál hælisleitenda frá öðrum stríðshrjáðum ríkjum á borð við Sýrland, Írak og Sómalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert