Draggkeppni Íslands haldin hátíðleg í Hörpu

Af draggkeppninni 2013 - Keppnin verður haldin í Eldborg, en …
Af draggkeppninni 2013 - Keppnin verður haldin í Eldborg, en stemningin er alltaf gífurleg að sögn stjórnenda. Sent af stjórnenda keppninnar

Draggkeppni Íslands verður haldin hátíðleg í sautjánda sinn 6. ágúst næstkomandi í Eldborgarsal Hörpu og eru væntingar miklar í kringum hana. Georg Erlingsson Merritt, stjórnandi og fyrrverandi sigurvegari keppninnar, segir að dragg sé listgrein sem ekki allir séu færir um að ná tökum á.

„Drag er fyrst og fremst listgrein. Þetta er hæfileikakeppni þar sem karlar og konur fara í gervi hins kynsins og ýkja allt rosalega,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Gífurleg vinna sé oft lögð í atriðin. „Sumir eru að sauma sína eigin búninga, aðrir mála sig sjálfir líka. Það er rosaleg list að geta stigið á svið og gert það sem þátttakendur gera. Það getur þetta ekki hver sem er. Þú verður að vera trúverðugur og fanga salinn og dómnefndina ef þú vilt vinna.“ Keppt er um titil draggkóngs- og drottningar í keppninni.

Ekki klæðskiptingar heldur sviðslistamenn

Georg segir dragg hafa mikið menningarlegt gildi. „Þetta er fastur liður í okkar menningu. Drag er í raun eitt elsta formið af sviðslist sem er búið að fara með í öfgafulla útgáfu. Þetta eru ekki klæðskiptingar heldur sviðslistamenn,“ segir hann og vitnar til við forngrískrar sviðslistar, þar sem karlar fóru með kvenhlutverk því konum var bannað að leika á móti þeim.

Aðspurður hvers vegna sérstög drag keppni sé haldin á Íslandi svarar Georg: „Hvers vegna ekki? Það þarf að halda í þessar gömlu hefðir, sem drag er. Hvort sem drag á pólitískan rétt á sér eða ekki skiptir ekki máli. Drag má vera pólitískt eða ekki. Það þarf ekki að hafa rétt á sér.“

Viðtökur við drag séu háðar menningarlegu umhverfi hverju sinni. „Það er alltaf tabú í kringum þetta. Menningarheimurinn er síbreytilegur og stundum er þetta viðurkennt og stundum ekki.“

Fylgt Hörpu frá fæðingu

Alltaf er góð stemning og tilhlökkun fyrir keppninni, segir Georg. „Í ár eru mjög góðir keppendur þannig að þetta verður einstaklega skemmtileg sýning.“ Auk átta keppenda verða leynigestir með óvænt atriði og grínistinn Þorsteinn Guðmundsson verður kynnir.

„Ég lá í krampakasti yfir honum um daginn.“

Keppnin verður haldin í Hörpu einsog áður hefur verið. „Frá fæðingu Hörpu 2011 hefur draggkeppnin verið haldin þar.“ Miðaverð er 2.800 krónur og miða má nálgast á Harpa.is.

Eftirfarandi myndskeið sýnir hvernig var umhorfs á draggkeppninni í fyrra.

Af draggkeppninni 2013 - Mikil vinna er oft lögð í …
Af draggkeppninni 2013 - Mikil vinna er oft lögð í atriðin Sent af stjórnenda keppninnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert