Farþegar farnir að streyma út á land

Ferðalangar eru þegar farnir að streyma út á land með …
Ferðalangar eru þegar farnir að streyma út á land með flugi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðalangar eru þegar farnir að streyma á Ísafjörð, Egislstaði og Akureyri með flugi en 4.100 manns fljúga með Flugfélagi Íslands innanlands um verslunarmannahelgina. Vel er bókað í vélarnar að sögn Inga Þórs Guðmundssonar, forstöðumanns sölu- og markaðssviðs en fullbókað er í mörg flug á mánudaginn.

Ingi Þór segir að flugfélagið hafi bætt við ferðum eftir því sem eftirspurnin jókst. Eitthvað virðist vera um að viðskiptavinir bóki flug núna, rétt fyrir helgina, og má því ætla að landsmenn hafi fylgst með veðurspánni og elti nú góða veðrið.

Með Herjólfi til Vestmannaeyja en fljúga heim

Vestmannaeyjar er ekki einn af áfangastöðum Flugfélags Íslands yfir árið en þó er flogið þangað yfir verslunarmannahelgina. Ingi Þór segir að nokkuð sé um að viðskiptavinir panti aðeins aðra leið, til baka á mánudagi, og fari því væntanlega með Herjólfi til Vestmannaeyja. Þá er mjög vel bókað í flug til Ísafjarðar en þar fer Mýrarboltinn fram.

Allt lítur út fyrir að mánudagurinn verði stærsti flugdagur ársins hjá flugfélaginu. Uppbókað er í margar ferðir þann dag og hefur flugfélagið ekki tök á að bæta við flugum.

Til að mynda verða farnar fimm ferðir fram og til baka til Vestmannaeyja, sex til og frá Akureyri og jafn margar ferðir til og frá Grænlandi. Þennan dag munu 850 farþegar ferðast innanlands og 380 í millilandaflugi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert