Gefa mat í gegnum Facebook

Myndin sem Jóhanna setti inn á síðuna í gær.
Myndin sem Jóhanna setti inn á síðuna í gær. Mynd/Jóhanna Bjarndís Sævarsdóttir

„Það fór allt á flug. Fólk fékk innblástur og var langt fram eftir nóttu að leita í ísskápum og eldhússkápum að mat og taka myndir af því og setja inn á síðuna,“ segir Jóhanna Bjarndís Sævarsdóttir en hún setti í gær inn auglýsingu á Facebooksíðu þar sem hún bauð mat sem hún átti í frystinum til fólks sem hefur lítið á milli handanna. 

„Það var kona í gær sem setti inn mynd á Facebooksíuna sem hafði verið að taka til í eldhússkápnum og týndi saman það sem hún hafði ekki verið að nota og setti það inn í grúppuna. Þá hugsaði ég að ég ætti mikið kjöt sem ég var ekkert að borða og fór að skoða þetta. Síðan reyndist þetta vera heill hellingur af kjöti,“ segir Jóhanna. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. 

„Það voru margir sem sendu fyrirspurn, og ég er enn að fá margar þótt mitt kjöt sé allt farið. Þörfin er svo ótrúlega mikil,“ segir Jóhanna. Margir þeirra sem senda fyrirspurn, gera það á vegum fólks sem þarf á því að halda. „Margir segjast þekkja einstæðar mæður eða eldri borgara sem þurfa á matnum að halda. Margir eru að gefa mat í kringum hátíðarnar, páskana og jólin en minna þess á milli. Nú er líka verslunarmannahelgi og margir eiga þess ekki kost að komast út úr bænum á hátíðir og er þá frábært að geta veitt þessu fólki eitthvað gott í matinn.“

Facebooksíðan sem um ræðir heitir Gefins, allt gefins! Er það einhvers konar samkomustaður fyrir fólk sem vill losna við hluti með því að gefa þá, en bannað er að selja hluti á síðunni. Hingað til hefur þó verið lítið um að fólk sé að gefa mat. „Ég hef alla veganna ekki séð mikið um það áður,“ segir Jóhanna. 

Uppfært 18:04

Jóhanna Bjarndís hefur stofnað sér facebooksíðu utan um matargjafir undir nafninu: „Matargjafir.“ Hægt er að nálgast hana hér: Matargjafir á facebook

Sjá Facebooksíðuna Gefins, allt gefins!

Jóhanna Bjarndís ásamt eiginmanni sínum, Rafal Arapinowicz
Jóhanna Bjarndís ásamt eiginmanni sínum, Rafal Arapinowicz Mynd/Jóhanna Bjarndís Sævarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert