Barnafjölskyldur flykkjast í Vatnaskóg

Mynd/Þóra Björg Sigurðardóttir

„Tjaldsvæðin eru að fyllast af tjöldum og veðrið er æðislegt, þannig að þetta fer rosalega vel af stað,“ segir Þóra Björg Sigurðardóttir í Vatnaskógi en þar fer fram hátíðin Sæludagar nú um verslunarmannahelgina. 

„Fólk er bara að grilla ommelettur í góða veðrinu,“ segir Þóra. Dagskráin hófst í gær en búist er við að mesti straumurinn komi í dag. „Það er mikil barnadagskrá um helgina. Nú klukkan 11 hófst barnastund og svo verður keppt í fótbolta. Síðan eru bátarnir opnir allan daginn og það er frítt í þá fyrir fjölskyldur. Hoppukastalar og leiktæki sjá síðan um að börnunum leiðist ekki. Þetta er mikil fjölskylduhátíð, vel hugsað um börnin og alltaf eitthvað í boði.“

Í fyrra var veðrið ekki upp á sitt besta, en samt mættu um 1300 manns. Þóra segist búast við svipuðum fjölda í ár. Flestir þeir sem leggja leið sína á hátíðina eru barnafjölskyldur. „Svo er líka töluvert af eldra fólki. Það er kannski minnst af fólki í kringum 20–30 ára en það er samt líka unglingadagskrá í höndum annarra unglinga og svo er ball annað kvöld. Þannig séð höfðar þetta til allra aldurshópa,“ segir Þóra.

Eurovisionstjarna og töframaður

„Ég hugsa það sé aðallega barnadagskráin sem trekkir fólk. Þú borgar inn á svæðið en svo er allt frítt fyrir börnin, hoppukastalarnir og bátarnir. Jóhanna Guðrún söngkona kemur svo hingað annað kvöld sem og töframaðurinn Einar Mikael. Það er í rauninni ekkert sem þú þarft að kaupa inni á svæðinu, það er mjög hentugt. Svo er þetta bindindishátíð og margir kannski koma hingað þess vegna.“

Flestir þeir sem koma gista annaðhvort í tjöldum eða í skálum. „Það eru mjög fáir í húsbílum. Það er tjaldsvæði og svo er boðið upp á svefnpokapláss í skálum en það er allt uppbókað.“

Mynd/Þóra Björg Sigurðardóttir
Mynd/Þóra Björg Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert