Festi bílinn í utanvegaakstri

Bíllinn sem ók utanvegar við Lakagíga í dag.
Bíllinn sem ók utanvegar við Lakagíga í dag. Mynd/Lögreglan á Hvolsvelli

Lögreglan á Hvolsvelli var í dag við eftirlit við Lakagíga í Vatnajökulsþjóðgarði þegar hún stóð erlendan ökumann að utanvegaakstri á bílaleigubíl. Ökumaðurinn, sem var erlendur ferðamaður, hafði ekið út fyrir veg í mýrarmosa og fest bifreið sína þar.

Ökumaðurinn sagði við lögreglu að hann hafi ekið þessa leið til þess að forðast poll á veginum. Að sögn lögreglunnar fékk mál þetta viðeigandi meðferð, en sektir við utanvegaakstri geta numið allt að 500 þúsund krónum. 

Þorsteinn Kristinsson hjá lögreglunni á Hvolsvelli segir að utanvegaakstur sé of algengur og sérstaklega á Fjallabaksleiðunum. Sérstaklega sé slíkur akstur einnig hættulegur á óútbúnum bílum, en ferðamaðurinn sem tekinn var í dag var á Suzuki Grand Vitara. „Menn halda að af því þeir eru á fjórhjóladrifnum bílum geti þeir komist allt. Það þyrfti hins vegar jeppa í svona lagað,“ segir Þorsteinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka