Fyrstu rýmingu lýkur í nótt

Horft eftir Jökulsá á Fjöllum í átt upptökunum við Dyngjujökul. …
Horft eftir Jökulsá á Fjöllum í átt upptökunum við Dyngjujökul. Fremst til vinstri eru Upptyppingar, þá Kverkfjöll og Kverkjökull. mbl.is/Una Sighvatsdóttir

Samkvæmt upplýsingum frá aðgerðarstjórn Almannavarna, mun fyrstu rýmingu af hálendinu norðan Dyngjujökuls ljúka um klukkan 1 í nótt. Eru nú allir þeir sem dvöldu í skálum í Dreka og Kverkfjöllum á leið af svæðinu. 

Í framhaldinu verður svæði svo betur kembt til þess að athuga hvort einhverjir fleiri ferðamenn séu þar á ferð. 

Lögreglustjórarnir á Húsavík og á Seyðisfirði í samstarfi við Almannavarnir ákváðu í dag að rýma hálendið norðan Dyngjujökuls vegna jarðhræringa síðustu daga. Talið er að ekki sé hægt að útiloka að skjálftavirknin í kringum Bárðarbungu leiði til eldgoss með stuttum fyrirvara. 

Þá var einnig ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna á svæðinu en hingað til hefur aðeins verið um óvissustig að ræða. 

Lögreglan á Húsavík sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að lauslega ágiskað gæti fjöldi manna á þessu svæði verið um 100 manns. Í gær var fjöldinn á svæðinu talinn vera um 200

Í tilkynningu frá aðgerðarstjórn Almannavarna í kvöld segir að lokanirnar á slóðum á svæðinu séu eftirfarandi:

1. Inn á F88 af þjóðvegi 1 við Hrossaborg

2. Inn á F910 Kverkfjallaleið af F805 við Þríhyrningsleið. 

3. F910 Gæsavatnaleið af F84 við Tómasarhaga. 

4. Frá Grænavatni Mývatnssveit inn á Dyngjufjallaleið. 

5. Frá Svartárkoti Bárðardal inn á Dyngjufjallaleið. 

6. Frá Stórutungu inn á leiðina upp með Skjálfandafljóti að austan. 

Jarðhræringarnar halda uppteknum hætti

Frá miðnætti í nótt hafa verið um 1000 skjálftar á svæðinu og því ljóst að skjálftavirknin hefur haldið áfram af sömu ákefð og í gær. Enginn þeirra var með styrkleika yfir 3. Líkt og í gær gengu yfir tvær skjálftaöldur yfir daginn. Ein á milli 4 og 8 í morgun og hin á milli klukkan 16 og 18:30 samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. 

Jarðhræringarnar eru enn á um 5-12 km dýpi og ekkert sem bendir til þess að kvikan sé á leið upp á yfirborðið enn sem komið er. 

Flóð kæmi í Jökulsá á fjöllum

Fyrr í dag sagði í tilkynningu frá vatnavárhópi Veðurstofu Íslands að ef til goss kæmi myndi bræðsluvatn renna jafnóðum undan jöklinum og valda flóði í Jökulsá á Fjöllum. Talið er lík­legt að að ferðatími vatns­ins frá gosstað að jök­uljaðri yrði 1-1,5 klukku­stund­ir og lík­leg stærð hlaups yrði á bil­inu 5.000-20.000 rúm­metr­ar á sek­úndu. Frá gosstað niður að Herðubreiðarlind­um væri lík­leg­ur ferðatími 4,5 klukku­stund­ir, niður að brúnni á Jök­ulsá við Grímsstaði 7 klukku­stund­ir og niður að Ásbyrgi um 9 klukku­stund­ir. 

Bárðarbunga og hálendið norðan Vatnajökuls.
Bárðarbunga og hálendið norðan Vatnajökuls. Kort/Landmælingar Íslands
Ljósmynd/Ómar Ragnarsson
Myndin sýnir skjálftavirknina frá laugardeginum fram til dagsins í dag. …
Myndin sýnir skjálftavirknina frá laugardeginum fram til dagsins í dag. Dökkbláu blettirnir sýna laugardag og þeir appelsínugulu daginn í dag. Hinir gulu og ljósbláu sýna dagana þar á milli. Mynd/Veðurstofa Íslands
Við Fossa á hálendinu norðan Vatnajökuls. Herðubreið er í baksýn.
Við Fossa á hálendinu norðan Vatnajökuls. Herðubreið er í baksýn. mbl.is/Una Sighvatsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert