Leita álits EFTA-dómstóls

WOW air.
WOW air.

Hæstiréttur úrskurðaði í gær að leita skuli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þremur spurningum er varða fyrirkomulag Isavia á úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði í júlímánuði hafnað kröfu Icelandair um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, en sá úrskurður var kærður. Taldi Hæstiréttur að í ljósi atvika málsins gætu svör við þessum spurningum haft þýðingu við úrlausn málsins og þar með haft áhrif á úrslit þess.

Wow Air höfðaði mál á hendur Samkeppniseftirlitinu, Isavia og Icelandair og krafðist þess að tveir úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála yrðu felldir úr gildi. Wow Air hafði beint erindi til Samkeppniseftirlitsins og kvartað yfir fyrirkomulagi Isavia við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli vegna flugs til Bandaríkjanna árið 2014 og lauk Samkeppniseftirlitið málsmeðferð vegna kvörtunarinnar með ákvörðun, þar sem þeim fyrirmælum var beint til Isavia að flugfélaginu yrði gert kleift að hefja flug til Bandaríkjanna í samkeppni við aðra flugrekendur.

Isavia og Icelandair skutu þeirri ákvörðun Samkeppniseftirlitisins hvort fyrir sitt leyti til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem felldi ákvörðunina úr gildi með fyrrgreindum tveimur úrskurðum sínum.

Undir meðferð málsins í héraði beiddust Isavia og Icelandair þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum um skýringu á reglugerð 95/93/EBE, meðal annars um stöðu svokallaðs samræmingarstjóra flugvalla samkvæmt reglugerðinni.

Með hinum kærða úrskurði var beiðni Isavia og Icelandair hafnað með vísan til þess að ekki yrði séð að svör EFTA-dómstólsins við þeim spurningum, sem fram kæmu í beiðninni, hefðu þýðingu fyrir úrlausn málsins. Var í því sambandi vísað til þess að þau atriði, sem beiðnin Isavia laut að, vörðuðu skýringu íslenskra laga og réttarheimilda og að EFTA-dómstóllinn yrði ekki krafinn um skýringu á ákvæðum landsréttar aðildarríkja.

Þá félli túlkun innlendra samkeppnislaga og mat á rétthæð þeirra gagnvart öðrum landslögum utan valdsviðs EFTA-dómstólsins.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um evrópska efnahagssvæðið skuli skýra lög og reglur til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. „Slík lögskýring taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast sé unnt gefin merking, sem rúmist innan þeirra og komist næst því að svara til sameiginlegra reglna sem gildi á Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir í dómnum.

Getur haft áhrif á úrslit málsins

Í ljósi atvika málsins, málsástæðna Wow Air og kröfugerðar félagsins í málinu væri nægjanlega fram komið að skýring á ákvæðum reglugerðar 95/93/EBE gæti haft þýðingu þegar leyst verði úr kröfum Samkeppniseftirlitsins og flufélagsins og þar með haft áhrif á úrslit málsins.

Var því kveðið á um að leitað skyldi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði. Kom fram í því sambandi að engu breytti þótt málið væri rekið sem flýtimeðferðarmál, enda gæti forseti EFTA-dómstólsins samkvæmt starfsreglum dómstólsins tekið ákvörðun um flýtimeðferð máls ef ljóst væri af ástæðum sem vísað væri til að verulega brýnt sé að leysa úr málinu.

Dómur Hæstaréttar

Sjá einnig fréttir mbl.is: Úthlutunarmál WOW aftur í hérað

Wow air kærir frávísun til Hæstaréttar

Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eru í Brussel í Belgíu.
Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eru í Brussel í Belgíu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert