4000 miðar ósóttir

Söngvarinn Justin Timberlake er væntanlegur til landsins í vikunni.
Söngvarinn Justin Timberlake er væntanlegur til landsins í vikunni. AFP

Fjórðungur þeirra 16 þúsund manns sem eiga miða á tónleika stórstjörnunnar Justin Timberlake á sunnudaginn eiga eftir að sækja miðann sinn. Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdarstjóri tónlistar- og viðburðarsviðs Senu, segir það ákveðið áhyggjuefni. 

„Eins og staðan er núna eiga rúmlega fjögur þúsund manns eftir að sækja miðana sína, það er einfaldlega alltof mikið,“ segir Ísleifur. „Það er náttúrulega mjög slæmt ef að fjögur þúsund manns koma í Kórinn á sunnudaginn til að sækja miðana sína.“

 Þeir sem eiga miða á tónleikana geta sótt hann á þrjá staði, verslanir Brim á Laugavegi 71 og Kringlunni, og afgreiðslu miða.is að Skaftahlíð 24. 

Hægt verður að sækja miða á tónleikastað á sunnudaginn en Ísleifur mælir ekki með því. „Það verða bara tvær eða þrjár stöðvar í gangi í Kórnum og þær ráða ekki við margmenni,“ segir Ísleifur sem hvetur alla þá sem eiga eftir að sækja miða að drífa sig í því. „Við viljum að þetta gangi smurt fyrir sig og þá þurfa allir að vera skipulagðir í að sækja miðana og alls ekki geyma það fram á síðustu stundu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert