Akurselsbændur halda ró sinni

Að Akurseli fer fram lífræn gulrótarræktun og eru akrarnir vökvaðir …
Að Akurseli fer fram lífræn gulrótarræktun og eru akrarnir vökvaðir með vatni úr Jöklu. Skapti Hallgrímsson

Stefán Gunnarsson bóndi í Akurseli í Öxarfirði, segir að þar sé unnið að því að taka upp gulrætur þessa dagana og hann óttist ekki hlaup í Jökulsá á Fjöllum. „Við erum við uppskeru þangað til og meðan er,“ segir Stefán.

Gulræturnar eru ræktaðar við vesturbakka Brunnár á Austursandi við Öxarfjörð, á móts við bæinn Núp. Í Brunná rennur Sandá sem kvíslast úr Jökulsá skammt neðan brúar. Bakkahlaup er vestari kvísl Jökulsár sem skilur að Austursand og Vestursand.

Um þrettán manns vinna við framleiðsluna og segir Stefán að áfram sé tekið upp á svipuðum hraða og venjan er á þessum árstíma, enda erfitt að gera nokkuð annað, bætir hann við.

Bændurnir á Akurseli í Öxarfirði rækta lífrænar gulrætur, þekktar fyrir bragðgæði. Uppskeran er um 100 tonn á ári.

Stefán Gunnarsson og Sigurbjörg Jónsdóttir, hófu garðyrkjubúskap á Dyrhólum við Vík í Mýrdal á sínum tíma en fluttu norður 1999. Ræktuðu þar fyrst gulrætur í svokölluðu Bakkalandi, sem er í eigu sveitarfélagsins, en eignuðust síðan Akursel.

Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í fyrra eru gulræturnar vökvaðar með vatni úr Jökulsá á Fjöllum, sem rennur til sjávar spölkorn frá. Vatnið er leitt í leiðslum beint úr ánni. „Einhverjir halda því fram að gulræturnar séu betri eftir að við fórum að vökva með þessum hætti og ég vil auðvitað trúa því að Jökla breyti bragðinu því hún er svo næringarrík. Svo skiptir það örugglega miklu máli að ræktunin er lífræn,“ segir Sara Stefánsdóttir í samtali við Morgunblaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert