Ekkert „panikk“ í Mývatnssveit

„Við lögðum áherslu á að allir hefðu nægan tíma og þetta væri bara öryggisráðstöfun,“ segir Sveinn Óskarsson í hálendisvakt björgunarsveitanna, en hann var einn þeirra sem annaðist lokanir og rýmingu við Öskju í gær. Sveinn segir að flestir sem björgunarliðar áttu samskipti við hafi verið erlendir ferðamenn, en þeir hafi tekið boðunum vel.

„Það voru um 30 manns eftir inni í Dreka þegar við fengum tilkynningu um að rýma ætti svæðið, þá fórum við að snúa fólki frá og vorum búnir að snúa nánast öllum frá þegar löggan kom á svæðið. Þetta gekk allt ljómandi vel og fólk tók vel í rýminguna,“ segir Sveinn.

Skálaverðir héldu aftur inn á svæðið í dag til þess að ganga frá húsunum að sögn Sveins.

Sex gistu í nótt

Neyðarnefnd Rauða kross Íslands hefur sett upp þrjár fjöldahjálparstöðvar á svæðinu; á Kópaskeri, á Húsavík og í Mývatnssveit. Stöðin í Mývatnssveit var opnuð í grunnskólanum í Reykjahlíð í gærkvöldi, en þar gistu sex manns í nótt að sögn Ingólfs Freyssonar, formanns neyðarnefndar.

„Við gerðum einfaldlega ráð fyrir að taka við því fólki sem á þurfti að halda. Það gistu hjá okkur fjórir erlendir ferðamenn og tveir skálaverðir innan úr Dreka. Þetta fólk hélt svo bara sína leið í morgun,“ segir Ingólfur.

Hann segir enga hræðslu eða örvæntingu hafa gert vart við sig hjá ferðamönnunum, heldur hafi almennt ríkt yfirvegun og ró í aðgerðum gærdagsins. „Það var mjög rólegt og ekkert „panikk“. Ástæðan fyrir því að svæðin voru rýmd var fyrst og fremst sú að þetta er svo dreift og erfitt að hafa nákvæma vitneskju um hvar fólk er,“ segir Ingólfur.

„Stöðvarnar þrjár eru tilbúnar og við erum bara klár ef þessi ósköp dynja yfir.“

Björgunarliðar úr hálendisvakt björgunarsveitanna önnuðust rýmingu í gær.
Björgunarliðar úr hálendisvakt björgunarsveitanna önnuðust rýmingu í gær. Morgunblaðið/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert