Fær hótanir frá heimalandinu

Skiltið sem David mætti með í gleðigönguna í sumar.
Skiltið sem David mætti með í gleðigönguna í sumar. Mynd/Amnesty

„Ég hef fengið margar hótanir og systir mín missti vinnuna út af mér,“ segir David Kajjaba frá Úganda sem hefur oft heimsótt Ísland á undanförnum árum og tók í ár þátt í gleðigöngunni í Reykjavík þar sem hann vakti athygli á stöðu samkynhneigðra í Úganda. 

David komst fyrst í kynni við Ísland þegar Íslendingurinn Pálmi Steingrímsson kynntist honum á ferð sinni til Úganda. Fjölskylda Pálma bauð David síðan í heimsókn hingað til lands árið 2010 og hafa heimsóknir Davids nú alls orðið fjórar. David segir að þessi „íslenska fjölskylda hans“ hafi kennt honum mikið um að bera virðingu í garð annarra sem eru öðruvísi en hann sjálfur. 

Í ár ákvað David að taka þátt í gleðigöngunni með Íslandsdeild Amnesty International. Hann setti upp Facebooksíðu undir nafninu Regnbogi frá Íslandi til Úganda. Tilgangurinn er að berjast fyrir réttindum samkynhneigðra í heimalandi hans. Réttindi þeirra eru illa tryggð þar í dag og hafa verið sett lög sem banna samkynhneigð, þótt stjórnlagadómstóll hafi nýlega úrskurðað lögin ógild. 

David segir að sér hafi borist mörg hótunarbréf eftir að hann fór af stað með Facebooksíðuna. „Spjallþættir í útvarpi í Úganda hafa fjallað mikið um það hvernig hægt sé að stöðva baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigðra, eins og mig. Systir mín missti vinnuna út af mér, og vill ekki tala við mig í dag, sem er skiljanlegt upp að vissu marki. Síðan hafa einhverjir photoshoppað mynd af mér þar sem andliti mínu er komið fyrir á kvenmannslíkama í kjól. Margir í Úganda reyna að telja fólki trú um að ég klæði mig eins og kona um leið og ég kem til Íslands.“

Mannréttindafrömuður var myrtur árið 2011

Í fararbroddi baráttunnar gegn réttindum samkynhneigðra er hópur sem nefnist Anti-gay activists. David segir hópinn halda því fram að David og aðrir baráttumenn fyrir réttindum samkynhneigðra séu á launum frá evrópskum þjóðum, sem vilja hafa áhrif á afríska menningu. Nefnir David þar sem dæmi David Kato, sem var Úgandískur baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra. Hann var myrtur árið 2011 af manni sem braust inn á heimili hans, að öllum líkindum vegna mannréttindabaráttu hans. Áður hafði tímarit að nafni Rolling Stone, sem gefið er út í Úganda, birt mynd af Kato ásamt texta sem sagði að hann sé samkynhneigður og að hann ætti að hengja. 

Segist David vilja fara aftur til Úganda, enda sé það heimaland hans. Hins vegar hafi hann heyrt sögusagnir um að lögreglan sé að rannsaka hann, og því er hann nú að kanna málið gaumgæfilega áður en hann heldur aftur utan í september. 

Í Úganda leiðir David hóp af fólki sem berst fyrir réttindum samkynhneigðra. Hópurinn á þó erfitt með að vinna skipulega og ber hann til að mynd ekkert nafn, svo erfiðara sé fyrir lögreglu og fjölmiðla að komast að því hvaða fólk sé í hópnum. 

Menntun er lykillinn að framþróun

Síðustu þrjú ár hefur David stundað sjálfboðaliðastarf í heimalandinu fyrir samtök sem nefnast Candle light organization. Hefur David unnið þar í skólum. Segir hann menntun það mikilvægasta sem vestrænar þjóðir geta aðstoðað landið með. „Þegar ég ræddi við hóp af krökkum um samkynhneigð stóð helmingurinn upp og gekk út. Margir í Úganda misskilja samkynhneigð og að mínu mati er það vegna trúar þeirra. Hinir sem sátu eftir í skólastofunni reyndu í það minnsta að hlusta á það sem ég hafði að segja.“

„Menntun er það sem breytir skoðunum fólks. Ég fékk menntun mína frá íslenskum foreldrum mínum hér á Íslandi. Það hefur hjálpað mér gríðarlega til þess að skilja fjölbreytileika samfélagsins. Menntun er lykillinn að framþróun og breytingum í samfélögum. Fólk vill ekki að það sé sannfært, heldur verður að eiga sér stað umræða, svo fólk geti sjálft séð að það gæti haft rangt fyrir sér. Mér hefur þannig tekist að breyta skoðunum sumra sem ég hef rætt við, en ekki allra,“ segir David. 

Baráttumaður alla tíð

Barátta Davids heldur áfram þrátt fyrir mótlæti. David missti föður sinn í stríði áður en hann fæddist. „Faðir minn barðist fyrir friðinum sem nú ríkir í Úganda. Ég ætla mér að halda áfram baráttunni fyrir réttindum samkynhneigðra.“

Baráttan fyrir réttlæti hefur verið löng hjá David. Hann greinir einnig frá því þegar hann og bróðir hans þurftu að kljást við verslun sem þeir störfuðu hjá í heimalandinu. „Verslunin kom fram við fólk eins og þræla. Við stóðum á okkar rétti og bróðir minn missti vinnuna. Eftir að verkalýðshreyfingin kom að málinu unnum við sigur, auk þess sem við vorum með stuðning meirihluta fólks í landinu. Baráttan fyrir réttindum samkynhneigðra er öðruvísi, því fæstir í landinu vilja veita þeim réttindi.“

David ber Íslendingum vel söguna og segist hann hafa lært margt hér á landi. „Ég hef lært að bera virðingu fyrir fólki sem er öðruvísi en ég, og ég vil fara með þekkingu mína á mannréttindum aftur til Úganda.“ Vill hann sérstaklega koma á framfæri þökkum til hinna íslensku vina hans sem hafa að hans sögn menntað hann í mannréttindum. Þá þakkar hann einnig Íslandsdeild Amnesty International og lögreglunni á Íslandi fyrir aðstoðina. 

David ásamt félögum sínum úr Íslandsdeild Amnesty.
David ásamt félögum sínum úr Íslandsdeild Amnesty. Mynd/Amnesty
Mynd/Amnesty
Þessa mynd útbjuggu andstæðingar mannréttinda samkynhneigðra í Úganda. Reynt er …
Þessa mynd útbjuggu andstæðingar mannréttinda samkynhneigðra í Úganda. Reynt er að telja fólki trú um að David klæðist kvenmannsfötum á Íslandi.
Þetta er einn af þeim tölvupóstum sem David hefur fengið …
Þetta er einn af þeim tölvupóstum sem David hefur fengið senda frá óánægðum Úgandabúum. Mynd/Tölvupóstur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert