Málar myndir af hálendinu með munninum

Brandur Bjarnason Karlsson mun opna myndlistasýningu með verkum sínum í …
Brandur Bjarnason Karlsson mun opna myndlistasýningu með verkum sínum í Ráðhúsinu í janúar. Styrmir Kári

Brandur Bjarnason Karlsson lætur lömun sína ekki stoppa sig, en hann hyggst ferðast um hálendi Íslands og mála myndir af fjöllum og firnindum ofan frá. Brandur leitaði til Karolinafund og nýlega byrjaði söfnun þar í þágu verkefnisins, sem nefnist Fairwell return to the highlands eða Góða ferð við endurkomu á hálendið.

Brandur veiktist fyrir átta árum og byrjaði smátt og smátt að lamast, og í dag er hann bundinn við hjólastól og mikið hreyfihamlaður fyrir neðan háls. Hann hefur málað myndir með munninum síðustu þrjú árin, en tæknina lærði hann hjá Eddu Heiðrúnu Backmann, leikkonu, sem einnig málar með munninum. „Þegar ég er að mála upplifi ég ákveðið frelsi. Þá get ég algjörlega ráðið hvaðan ég horfi á hlutina,“ segir hann.

Málar Herðubreið frá nýju sjónarhorni

„Verkefnið gengur út á að senda flygildi (e. drone) upp í loftið, en það gerir mér kleift að sjá hluti ofan frá,“ segir Brandur. „Það er til dæmis búið að mála Herðubreið frá öllum sjónarhornum, en með þessu get ég séð nýja hlið á fjallinu.“ Brandur hefur nú þegar ferðast um Mývatnssveit og upp á Öskju þar sem hann sendi flygildið um allt. „Svo er stefnan að fara á fleiri staði sem fyrst,“ segir hann.

Með ágóða söfnunarinnar stefnir Brandur á að fjármagna tækjabúnað, ferðakostnað og aðstoðarfólk sem getur farið með honum. Brandur segir ágóðann einnig munu fara í bætingu á vinnuaðstöðu, en hann stefnir að því að eignast sitt eigið stúdíó. „Ég hef bara verið að mála heima hingað til og það er frekar þröngt og svo þarf alltaf að taka upp málningardótið og setja það niður aftur svo það tekur allt sinn tíma,“ segir hann.

„Mín hugmynd um paradís“

Brandur starfaði sem landvörður á sumrin áður en hann veiktist, og eyddi yfirleitt öllu sumrinu flakkandi á hálendinu. „Það var mín hugmynd um paradís og þetta verkefni gefur mér kost á að endurheimta þá tilveru,“ segir hann.

Samhliða verkefninu stefnir Brandur á að fljúga í svifvæng (e. paragliding), og er nú verið að byggja sérstakan hjólastól sem Brandur mun geta flogið um háloftin í. Heilbrigðistæknifyrirtækið Össur bauðst til að hanna og smíða stólinn, og vonast Brandur til þess að ná að fljúga í honum fyrir lok árs. Jafnframt hyggst Brandur mála af fullum krafti fram í janúar, en þá mun hann halda sýningu í Ráðhúsinu og birta málverk sín. 

Hægt er að leggja verkefninu lið á Karolinafund heimasíðu verkefnisins.

Brandur hefur málað myndir með munninum síðustu 3 árin.
Brandur hefur málað myndir með munninum síðustu 3 árin. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert