Óperusýning eins og að hlaupa maraþon

Sveinn Dúa Hjörleifsson og Hrönn Þráinsdóttir
Sveinn Dúa Hjörleifsson og Hrönn Þráinsdóttir

Ég fann að þetta var rétt og langaði að prófa þetta áfram,“ sagði Sveinn Dúa Hjörleifsson tenórsöngvari um sönglistina, sem hann uppgötvaði nánast fyrir tilviljun. Þá hafði hann flutt suður til Reykjavíkur frá Akureyri og stundaði nám í Stýrimannaskólanum og gekk í Karlakór Reykjavíkur. Þar vakti hann mikla lukku og söng meðal annars einsöng með kórnum. Þá varð ekki aftur snúið og skráði hann sig í söngskóla Sigurðar Demetz.

Að því loknu hélt hann til Vínarborgar í frekara söngnám. Fljótlega eftir námið hlaut hann fastráðningu við óperuhúsið í Linz í Austurríki og hefur verið þar síðastliðin tvö ár. Undanfarin sjö ár hefur hann varið í Austurríki og er ekki á leiðinni heim á næstunni.

Söngurinn tilviljun

Sveinn Dúa segir röð tilviljana hafa ráðið því að hann hafi orðið söngvari. „Það eru engir söngvarar í ættinni.“ Í barnæsku lærði hann á nokkur hljóðfæri. „Ég fann mig ekki í neinu þeirra og entist eina til tvær annir með hvert þeirra.“

Hann spilar þó á gítar og lærði það sjálfur á sjónum. Eftir grunnskólanám á Akureyri fékk hann vinnu hjá Landhelgisgæslunni og líkaði vel. Eftir ár á sjónum skráði hann sig í Stýrimannaskólann í Reykjavík og lauk þar þremur árum. Segja má að dvölin í Reykjavík og karlakórinn hafi haft úrslitaáhrif á líf tenórsins.

Var fastráðinn í fljótheitum

Í tvö ár, eftir söngnámið í Austurríki, var Sveinn Dúa í lausamennsku og söng eitt hlutverk í óperuhúsinu Linz. „Þeir voru ekki að leita að tenór þegar ég kom. Þeir bjuggu til nýja stöðu fyrir mig og bættu við tenór.“ Hann segir það mikla viðurkenningu að fá fastráðningu með þessum hætti. Þess má geta að eitthvað í kringum 300 slíkar stöður eru í Austurríki. Það dýrmætasta sem felst í slíkri ráðningu er reynslan, segir Sveinn Dúa.

Óperusöngur eins og íþrótt

„Það má líkja óperusöng við íþróttaiðkun. Þetta snýst um æfingu og reynslu, að þjálfa upp ákveðna vöðva. Ef maður er ekki í æfingu þá stendur maður sig ekki eins vel. Óperusýning er eins og að hlaupa maraþon. Það má ekki eyða allri orkunni strax heldur þarf að hugsa fram í tímann og leggja sig allan fram.“

Hann benti á að í Grikklandi til forna hefði verið keppt í söng á Ólympíuleikunum. „Það kemur mér ekki á óvart,“ sagði hann kankvís.

Honum líður mjög vel í tónlistarleikhúsinu Linz, sem hann nefnir svo. Þar er settur upp fjöldi uppfærslna, jafnt ballett og óperur. Húsið er nýtt og hefur mikið aðdráttarafl þessa stundina. „Margir eru forvitnir um húsið og vilja koma og sjá það. Hver sýning er nánast fyrir fullum sal.“ Óperuhefð er mjög rík í þýskumælandi löndum og fastagestirnir eru fjölmargir.

Sveini hefur verið boðið að starfa í Linz til næstu tveggja ára. Hann ákvað að taka eitt ár til að byrja með og getur hæglega bætt öðru ári við ef hann vill, það er að segja ef hann verður ekki floginn eitthvert annað út í heim.

Þó honum líki dvölin í Austurríki vel þá heilla stærri borgir hann einnig. „Þetta er passlegt álag og röddinni líður vel. Þetta er þægileg staða og ákveðið öryggi að vera með fastráðningu.“

Sveinn Dúa segir Íslendinga vera nokkuð marga í óperuheiminum, að minnsta kosti ef miðað er við höfðatölu. Iðulega þegar hann spjallar við erlenda óperusöngvara þá þekkja þeir til einhvers Íslendings og spyrja gjarnan hvort Sveinn þekki til hans. „Þá kannast maður oftast við aðilann,“ sagði hann glaðlega.

Manneskjan svipuð alls staðar í heiminum

„Er ekki manneskjan alltaf svipuð?“ svaraði Sveinn Dúa spurður út í líkindi Austurríkismanna og Íslendinga. Hann benti á að vissulega væri helsti munurinn milli landa alltaf tungumálið. Hann kvaðst ekki hafa verið góður í tungumálinu þegar hann kom fyrst en það hefði komið frekar fljótt. „Ég vinn mikið með tungumálið og það er ekki ósvipað íslenskunni.“

Hann bendir á að einn kostur fastráðningarinnar sé tveggja mánaða sumarfrí. Hann segir það frábært að koma heim og vera í íslensku sumri og hitta fjölskylduna.

„Erfiðast fyrir mig er fjarlægðin frá Ísland, að vera burtu frá fjölskyldu og vinum. Þá verður maður að njóta þess meðan á því stendur.“

Hann er að minnsta kosti ekki að flytja heim í bráð. Hann segir að allt hafi sinn tíma, af mikilli yfirvegun, eins og er þá einbeiti hann sér að núinu.

Spurður hvað honum þyki skemmtilegast að syngja nefnir hann sem dæmi verk eftir Mozart. Það henti hans rödd mjög vel. Þá hafi hann einnig einstaklega gaman af því að syngja þýsk ljóðalög (þ. Lieder) sem eru ekki ósvipuð íslenskum þjóðlögum.

„Maður verður að sjá hvernig röddin þróast. Auðvitað hef ég markmið og stefnu en ég hugsa ekki að ég verði að syngja þetta eða hitt og á tilteknum stöðum. Það setur óþarfa pressu. Maður þarf að æfa sig og vera eins góður og maður getur þá stundina, þetta er eiginlega hálfgerð hugarleikfimi.“

Sveinn Dúa hefur meðal annars komið fram á tónleikum í Konzerthaus Wien, Wiener Musikverein, Opera Bergen, Opera St. Moritz í Sviss og víðar og hlotið mikið lof fyrir.

Meðan á sumarfríinu stendur heldur Sveinn Dúa tvenna tónleika ásamt Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara, einsöngstónleika í Hofi á Akureyri 21. ágúst kl. 20 og í Hörpu í Reykjavík 24. ágúst kl 15. Á efnisskránni verða íslensk sönglög, óperuaríur, þýsk ljóðalög eftir Strauss ásamt ljóðalögum eftir E. Grieg í íslenskri þýðingu Sveins.

Sveinn Dúa Hjörleifsson
Sveinn Dúa Hjörleifsson
Sveinn Dúa Hjörleifsson
Sveinn Dúa Hjörleifsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert