Smala sanda í Kelduhverfi

Skapti Hallgrímsson

Sturla Sigtryggsson, bóndi í Keldunesi, segir íbúa í Kelduhverfi halda ró sinni þrátt fyrir viðvaranir frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hann, ásamt fleiri bændum í Kelduhverfi, er að fara að smala fé og hrossum af Vestursandinum fyrir neðan hraunið. Hann á ekki von á að smölunin taki langan tíma og verði jafnvel lokið upp úr hádegi. 

Kelduhverfi liggur inn af botni Öxarfjarðar á Norðausturlandi. Næst sjónum eru víðáttumikilir sandar (Vestursandur) sem eru nú að mestu grónir. Þetta eru óshólmar Jökulsár á Fjöllum, mýrlent land, víða kjarri vaxið, með sjávarlónum, stöðuvötnum og ám.  Síðan tekur við gamalgróið hraun og er byggðin nú öll á þessum forna hraunjaðri, enda liggur þjóðvegurinn þar. 

Bændur í Öxarfirði hafa einnig ákveðið að sækja fé og hross og eru að smala Austursandinn. Að sögn Stefáns Rögnvaldssonar, bónda á Leifsstöðum í Öxarfirði, var verið að smala fé í gær af söndunum og verður því haldið áfram í dag. Eins er verið að smala hrossum af Austursandinum en fé sem er á Austursandinum kemur frá tveimur bæjum, Ærlækjarseli og Ærlæk. Aðrir bændur í Öxarfirði smala fé sínu upp á afrétt þar sem það er öruggt, að sögn Stefáns.

Hann segir Öxfirðinga rólega þrátt fyrir yfirvofandi vá enda ekki annað hægt í stöðunni.

Sturla og kona hans, Bára Siguróladóttir, reka ferðaþjónustu í Keldunesi auk þess að annast veiði í Litluá og Skjálftavatni í Kelduhverfi. Að sögn Sturlu eru menn við veiðar í Litluá og engan bilbug að finna hjá veiðimönnum þrátt fyrir mögulega eldgosavá. Talið er að það taki ekki langan tíma að rýma Kelduhverfið og Öxarfjörð komi til hlaups í Jökulsá á Fjöllum eða nokkrar klukkustundir.

Að sögn Sturlu spyrja ferðamenn lítið um jarðhræringarnar og margir útlendir ferðamenn hafi ekki hugmynd um ókyrrðina í Bárðarbungu og þann viðbúnað sem settur hefur verið af stað.

Almannavarnir hafa lokað  leiðum á hálendinu á Norðausturlandi, norðan Dyngjufjalla. Einnig nokkrum leiðum upp úr Bárðardal og við Grænavatn. Vegslóðinn um Dyngjufjalladal milli Suðurárbotna og F 910 er lokaður vegna aurbleytu. Sjá hér

Litlaá í Kelduhverfi er bergvatnsá, sem upprunalega átti sér eingöngu upptök í lindum sem heita Brunnar við bæinn Keldunes.  Frá 1976 á hún sér einnig upptök í Skjálftavatni en það myndaðist við jarðsig í Kröflueldum. Vatnið úr Brunnum er óvenjuheitt og blandast kaldara vatni úr Skjálftavatni, þannig er meðalhiti vatnsins í ánni um 12°C. 

Skjálftavatn í Kelduhverfi
Skjálftavatn í Kelduhverfi Einar Falur Ingólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert