Búist við mikilli umferð í Laugardal

Laugardalsvöllurinn.
Laugardalsvöllurinn. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Viðbúið er að mikil umferð verði í Laugardalnum og nágrenni hans í kvöld, þegar Stjarnan og Inter Milan mætast í Evrópukeppninni í knattspyrnu. Uppselt er á leikinn og ljóst að ekki geta allir vallargestir lagt bílum sínum við völlinn.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnir ökumenn á að leggja löglega og bendir á að í nágrenni Laugardalsvallar séu víða ágæt bílastæði. „Þess má geta að veðurútlitið er gott og því ætti engum að muna um að leggja smáspöl frá leikvanginum og ganga í fáeinar mínútur að vellinum,“ segir á vef lögreglu.

Ökumenn sem leggja ólöglega mega eiga von á 5000 kr. sekt vegna stöðubrota.

Lögreglan klykkir svo út með því að birta mynd af Arnari Má Björgvinssyni, einum „hinna skæðu leikmanna Garðbæinga,“ með óskum til Stjörnunnar um gott gengi í baráttunni við ítalska stórliðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert