Bæði vélar og mannskapur tiltæk

Hengibrúin á þjóðvegi 1 yfir Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði.
Hengibrúin á þjóðvegi 1 yfir Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vegagerðin er í viðbragðsstöðu komi til eldgoss í Bárðarbungu og flóðs í Jökulsá á Fjöllum í kjölfarið. Þrjár brýr liggja yfir ána og er skoðað hvort og þá hvernig væri unnt að bjarga þeim frá flóðvatninu svo ekki þurfi að koma til þess að hringvegur 1 umhverfis landið fari í sundur til lengri tíma.

Jón Helgason framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni segir að búið sé að kortleggja þann mannskap og þær vinnuvélar sem tiltækar eru á Norðausturlandi, komi til þess að rjúfa þurfi veg.

Sérstök viðvörunarskilti sett upp í dag

Lokað hefur verið fyrir alla umferð um nokkuð stóran hluta hálendisins norðan Vatnajökuls. Til viðbótar við þær merkingar og lokanir sem starfsmenn Vegagerðarinnar hafa komið upp verða líka sett upp sérstök skilti í dag, þar sem varað er við hættu á eldgosi og flóðum. Nú þegar er búið að loka með keðjum eða öðrum samsvarandi hætti, auk merkinganna um lokun.

Tvær stórar hengibrýr liggja yfir Jökulsá á Fjöllum, önnur á hringveginum við Grímsstaði á Fjöllum og hin í Kelduhverfi í Öxarfirði. Þriðja brúin er smærri í sniðum og fjarri byggð, við Upptyppinga nærri upptökum Jökulsár og verður ekki reynt að bjarga henni sérstaklega.

Eins og mbl.is hefur greint frá er óvíst hvort brúin á þjóðveginum stæðist stórt flóð í Jökulsá á Fjöllum. Hún er hönnuð til að undir hana geti farið um 3000 rúmmetrar af vatni á sekúndu, en vatnavárhópur Veðurstofu Íslands áætlar að hugsanlegt hlaup gæti orðið frá 5000 til 20.000 rúmmetrar á sekúndu.

Mikil óvissa um vatnsmagnið

Mælingamenn Vegagerðarinnar viðuðu að sér gögnum á svæðinu í gær. „Við vorum svona að gera okkur grein fyrir því hvar væri best að rjúfa veginn sínum hvorum megin brúarinnar til að hleypa vatni fram og verja brýrnar eins og kostur er. En svo vita menn ekki hversu mikið vatn kemur, þannig að þetta er allt í dálítið mikilli óvissu,“ segir Guðmundur Heiðreksson deildarstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri.

Báðar brýrnar, við Grímsstaði og í Kelduhverfi, eru byggðar hærra en vegurinn þannig að hlaupvatnið mun flæða yfir veginn áður en flæðir yfir brýrnar. Ljóst er hinsvegar að hamfarahlaup upp á tugi þúsunda rúmmetra á sekúndu og þaðan af stærra mun taka brýrnar með sér, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Litlar líkur eru taldar á gosi sem myndi leiða til hamfarahlaups.

Jón Helgason framkvæmdastjóri segir aðspurður að Vegagerðin sé með mannskap bæði á Húsavík, Akureyri, Þórshöfn og Fellabæ sem hægt verði að kalla út ef á þurfi að halda. Sömuleiðis hafi Vegagerðin gott yfirlit yfir þær vinnuvélar sem tiltækar eru. 

„Við erum að viða að okkur gögnum og undirbúa okkur, en við erum náttúrlega ekki með frekari upplýsingar um það í bili hvað gerist, á þessari stundu er það svolítið erfitt. En við erum með ýmsa valkosti á borðinu sem við erum að skoða.“

Sjá einnig:

Óvíst hvort brúin stæðist jökulflóðið

Litlar líkur á hamfarahlaupi

Svona skilti hafa verið í undirbúningi og verða sett upp …
Svona skilti hafa verið í undirbúningi og verða sett upp í dag þar sem varað er sérstaklega við hættu á eldgosi og flóðum. Mynd/Vegagerðin
Mögulegur farvegur flóðs í Jökulsá á Fjöllum.
Mögulegur farvegur flóðs í Jökulsá á Fjöllum. Kort/Elín Esther
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert