Berggangur að myndast undir jökli

Dyngjujökull
Dyngjujökull Rax / Ragnar Axelsson

Mælingar gefa til kynna að 25 km langur berggangur sé að myndast undir Dyngjujökli. Jarðskjálftamælingar styðja að kvikan sé enn á 5–10 km dýpi og ekki eru merki eru um að virknin sé að færast ofar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu eftir fund vísindamanna nú fyrir hádegi.

Aðfaranótt 16. ágúst varð vart jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu sem hefur haldist stöðug síðan. Engin merki eru um að það dragi úr henni. Aflögunarmælingar (GPS) gefa til kynna að 25 km langur berggangur sé að myndast undir Dyngjujökli. Jarðskjálftamælingar styðja að kvikan sé enn á 5–10 km dýpi og ekki eru merki eru um að virknin sé að færast ofar. Samtúlkun nýjustu gagna bendir til þess að gangurinn sé að víkka við norðausturendann. Gangurinn hefur lítið lengst undanfarinn sólarhring. Jarðskjálftar mælast í Bárðabunguöskjunni sem stafa líklega af sigi vegna kviku sem flæðir frá kvikuhólfi undir henni, segir í tilkynningu.

„Verið er að auka mælingar á svæðinu og eru tæknimenn frá Veðurstofunni, Jarðvísindastofnun og erlendum rannsóknastofnunum að setja upp mælitæki í og við jökulinn. Fjöldi mælitækja sem hafa verið sett upp í samstarfi innan FutureVolc-verkefnisins gefa mikilvægar upplýsingar sem nýtast við eftirlit og greiningu.

Í gær var flogið yfir svæðið með flugvél Landhelgisgæslunnar TF-Sif sem býr yfir sértækum búnaði til eftirlits með breytingum á yfirborði jökuls og til vöktunar á flóðum. Engin merki sáust á yfirborði í þessu flugi. Með aðgengi að SIF eru vísindamenn nú í mun betri aðstöðu til eftirlits með umbrotunum og framvindu flóðs ef til kemur,“ segir enn fremur í tilkynningu frá vísindamönnum.

Kort ÍSOR af Bárðarbungu. Greinilega má sjá hvernig skjálftavirkni færist …
Kort ÍSOR af Bárðarbungu. Greinilega má sjá hvernig skjálftavirkni færist til innan jökulsins. ÍSOR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert