„Ég vildi gefa til baka“

Aron hefur safnað rúmlega einni milljón króna fyrir MND félagið …
Aron hefur safnað rúmlega einni milljón króna fyrir MND félagið á Íslandi. Ljósmynd/Aron Guðmundsson

„Þetta er ótrúlegur árangur sem hefur náðst í þessari söfnun,“ segir Aron Guðmundsson, tvítugur Ísfirðingur, en hann er efstur á blaði í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþonsins og hefur safnað rúmlega einni milljón króna til styrktar MND félagsins á Íslandi. Aron hyggst hlaupa hálft maraþon á laugardaginn, fyrir móður sína sem greindist með taugahrörnunarsjúkdóminn MND fyrir ári síðan.

MND stendur fyrir Motor Nourone Disease, en sjúkdómurinn herjar á hreyfitaugar líkamans sem flytja boð til vöðvanna. Af honum leiðir máttleysi og lömun í handleggjum, fótleggjum, munni, hálsi og á fleiri stöðum. „Þetta er mjög erfiður sjúkdómur og það er erfiður tími sem hefur farið í hann,“ segir Aron. Hann segir móður sína hafa haft samband við MND félagið stuttu eftir að hún greindist, og þar hafi henni verið tekið opnum örmum.

„Maður hefur kynnst fólkinu í þessu félagi og það er alveg frábært fólk. Lífssýn þeirra er að njóta hvers dags og taka lífinu ekki sem sjálfsögðum hlut,“ segir Aron. „Ég vildi gefa til baka því þau eru búin að hjálpa okkur svo mikið.“

Markmiðið fór úr 50 þúsund upp í milljón

Aron setti sér það sem markmið fyrir hlaupið að safna 50 þúsund krónum, en það taldi hann raunhæfa upphæð útfrá vinum og fjölskyldu. Hann var fljótur að hækka markið upp í 100 þúsund krónur, og fljótlega var það komið upp í 500 þúsund krónur. „Í síðustu viku ákvað ég svo að fara alla leið með þetta og keyra í milljónina. Ég var stressaður um að ná því ekki en svo náðist það á tveimur dögum,“ segir hann. „Þetta er komið fram úr öllum mínum væntingum. Þetta eru alveg frábærar viðtökur og frábært fyrir MND félagið.“

Hjálpar mikið að búa í litlu samfélagi

„Ég byrjaði að tala við fólkið í kringum mig en svo bý ég á Ísafirði og það hjálpar mikið að búa í svona litlu samfélagi. Maður sér það á svona stundu hvað samfélagið tekur manni opnum örmum og hvað samheldnin er mikil,“ segir Aron, en hann skrifaði bréf sem hann dreifði til fyrirtækja á Ísafirði auk þess að senda fjölmarga tölvupósta. „Auðvitað eru ekki allir tilbúnir að styrkja mann, en ég er mjög þakklátur fyrir alla þá sem hafa lagt málefninu lið,“ segir Aron.

Aron segir áheitasöfnunina hafa verið á góðum tíma, þar sem svokölluð ice bucket challenge, eða ísfötu-áskorun hefur verið áberandi á veraldarvefnum að undanförnu. „Með þessari áskorun er verið að vekja athygli á sjúkdómnum MND sem nefnist öðru nafni ALS. Fullt af frægum einstaklingum hafa tekið þátt og það skiptir miklu máli,“ segir Aron, en áskorunin gengur út á að hella ísvatni úr fötu yfir hausinn á sér. George W. Bush, Taylor Swift og David Beckham eru meðal frægra einstaklinga sem hafa tekið þátt í áskoruninni.

Hleypur hálfmaraþon í fyrsta skipti

Aron tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrsta skipti nú í ár. Hann hefur þjálfað stíft fyrir hlaupið og telur sig vel undirbúinn fyrir laugardaginn. „Ég byrjaði að hlaupa um leið og ég skráði mig í hálfmaraþonið og það hefur bara gengið vel. Ég hugsa að ég sé tilbúinn fyrir laugardaginn og ég held ég komist langt á því að hugsa um þetta félag. Það mun hjálpa mér mikið,“ segir hann.

Aron mun hlaupa í bol sem hann hannaði sjálfur, merktum MND félaginu. „Ég hannaði bolinn og svo leist Guðjóni Sigurðssyni, formanni félagsins, svo vel á hann að við létum gera fleiri boli og erum núna að selja þá samhliða þessu,“ segir hann. MND félagið hyggst setja upp bækistöð við Iðnó hjá Tjörninni þar sem tekið verður við styrkjum til félagsins og afhentir bolir til þeirra sem styrkja um lágmark 3.500 krónur. „Ef fólk á leið hjá þá má það endilega kíkja við,“ segir Aron. „Það verður frábær stemning.“

Hægt er að heita á Aron á áheitasíðu hans.

Aron og móðir hans sem greindist með taugahrörnunarsjúkdóminn MND fyrir …
Aron og móðir hans sem greindist með taugahrörnunarsjúkdóminn MND fyrir ári síðan. Bolina hannaði Aron. Ljósmynd/Aron Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert