Lestur settur í fagráð

mbl.is/Styrmir Kári

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum í gær að setja á fót fagráð um leiðir til að efla lestrarfærni og lesskilning barna og ungmenna í skólum borgarinnar.

Ráðið, sem skipað verður fræðimönnum og fagfólki, mun taka mið af því markmiði í samstarfssáttmála nýs meirihluta borgarstjórnar, að allur þorri barna  í Reykjavík geti lesið sér til gagns á fyrstu árum grunnskólans, segir í tilkynningu frá Reykjanvíkurborg.

„ Hlutverk ráðsins verður að móta tillögur um hvernig megi efla lestrarfærni og lesskilning meðal reykvískra grunnskólanemenda, sem og málþroska, hljóðkerfisvitund og læsi barna í leikskólum borgarinnar. Jafnframt á það að endurskoða fyrirkomulag lesskimunar í skólum borgarinnar og leggja fram tillögur til úrbóta.

Lögð verði áhersla á aðgerðir til að styðja við bakið á þeim nemendum sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda í lestrarnáminu. Þá er fagráðinu ætlað að benda á árangursríkar aðferðir í lestrarkennslu og námi, sem studdar eru fræðilegum rökum,“ segir í tilkynningu.

Formaður ráðsins verður dr. Freyja Birgisdóttir, dósent við menntavísindasvið HÍ. Fagráðið skal hafa samráð við kennara og stjórnendur í leikskólum og grunnskólum og samtök foreldra.

Johannes Jansson/norden.org
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert