Þrír nýir frisbígolfvellir opnaðir

Dagur B. Eggertsson tók formlega borgarstjórasveiflu á frisbígolfvellinum í Laugardal …
Dagur B. Eggertsson tók formlega borgarstjórasveiflu á frisbígolfvellinum í Laugardal í dag. mbl.is/Kristinn

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, tók í dag kl. 13.00 nýjan frisbígolfvöll í Laugardal formlega í notkun með því að bregða á leik í íþróttinni. Völlurinn er einn af þremur nýjum frisbígolfvöllum sem teknir hafa verið í notkun í sumar, en það er alls 150% aukning í fjölda slíkra valla í Reykjavík.

Nýju vellirnir eru staðsettir í Laugardal, Elliðárdal og í Fossvogi. Helmingur síðastnefnda vallarins er þó í Kópavogi, svo hægt er að láta frisbídiskinn svífa á milli sveitarfélaga. Nú eru vellirnir því alls 5 talsins, en fyrir voru vellir á Klambratúni og í Gufunesi.

Hugmyndin kom frá íbúum

„Það er mjög gaman að því að allir þessir þrír vellir eiga allir rætur að rekja til verkefnisins Betri hverfi,“ segir Jón Halldór Jónsson, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, en vellirnir komu þar inn sem hugmyndir frá íbúum svæðanna. Betri hverfi er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu og áttu íbúar kost á að koma með hugmyndir að því sem þeir vildu breyta og bæta í sínu hverfi. Völlurinn á Klambratúni kom einnig inn í gegnum þetta verkefni.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg munu nýju vellirnir færa aukið líf á þessi svæði. Frítt er inn á alla vellina, ekki þarf að bóka tíma og reglurnar eru einfaldar. Eini búnaðurinn sem þarf er einn frisbídiskur. Á hverjum velli eru 9 brautir og felst leikurinn í að kasta frisbídiski í sem fæstum köstum í sérútbúna körfu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert