Vilja hækka sóknargjöld í áföngum

Starfshópur um fjármál kirkjunnar skilað ráðherra tillögum sínum á dögunum. …
Starfshópur um fjármál kirkjunnar skilað ráðherra tillögum sínum á dögunum. Frá vinstri: Viðar Helgason, Sigríður Anna Þórðardóttir, Inga Rún Ólafsdótir og Gísli Jónasson. Af vef innanríkisráðuneytisins

Starfshópur um fjárhagsleg málefni Þjóðkirkjunnar leggur til að Þjóðkirkjan og innanríkisráðuneytið semji um hækkun sóknargjalda í áföngum á næstu árum. Einnig leggur nefndin til að eigi síðar en árið 2016 verði samið um að draga að fullu til baka á tilteknum tíma skerðingu á sóknargjöldum til að að ákvæði laga nr. 91/1987 um sóknargjöld komi að fullu til framkvæmda á ný.

Þetta kemur fram á vef innanríkisráðuneytisins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skipaði starfshópinn í desember í fyrra sem hafði það verkefni að endurskoða fjárhagsleg samskipti ríkis og þjóðkirkjunnar og safnaða hennar. Starfshópinn skipuðu þau Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrverandi ráðherra, Viðar Helgason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og séra Gísli Jónasson, prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra.

Starfshópurinn telur að með þessum aðgerðum verði söfnuðir þjóðkirkjunnar jafnsettir hvað niðurskurð varðar og stofnanir innanríkisráðuneytisins. Telur hópurinn einnig að í skýrslu nefndar fyrrverandi innanríkisráðherra, sem mat áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi Þjóðkirkjunnar og skilaði skýrslu í apríl 2012, sé dregin upp raunsönn mynd af niðurskurði á sóknargjöldum.

Hafi þau frá hruni 2008 numið um 25% umfram framlög til reksturs annarra stofnana sem heyrðu undir innanríkisráðuneytið. Í þeirri skýrslu kom fram að leiðrétting sem fékkst við lokaumræðu fjárlaga fyrir árið 2012 hafi verið mikilsverð viðurkenning á því að jafnræðis hefði ekki verið gætt og að tekjur af sóknargjöldum hefðu verið skertar langt umfram aðra sambærilega aðila sem byggja rekstur sinn á framlögum á fjárlögum.

Skapi stöðugleika í fjármögnun sókna

Þá telur starfshópurinn jafnframt að það fyrirkomulag sem kveðið er á um í gildandi lögum um sóknargjöld hafi staðist tímans tönn. Það sé farsælt bæði fyrir ríki og kirkju þar sem það skapi stöðugleika í fjármögnun sókna og sé einfalt í framkvæmd.

Því gerir starfshópurinn ekki tillögu að breyttu fyrirkomulagi varðandi ákvæði og framkvæmd núgildandi laga. Aftur á móti telur starfshópurinn að langt hafi verið gengið í tímabundnum skerðingum á sóknargjöldum með bráðabirgðaákvæðum við lögin sem hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur og fjármál sókna landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert