„Vona að ég þurfi ekki að fara aftur“

Fræðimaðurinn Jussi Pekkarinnen og Maimo Henriksson, núverandi sendiherra Finna í …
Fræðimaðurinn Jussi Pekkarinnen og Maimo Henriksson, núverandi sendiherra Finna í Noregi, halda hér á bók Pekkarinnens. mynd/Karoliina Huhtanen

„Veðurfarið er fyrirlitlegt – jafnvel á miðju sumri er kalt og raki í lofti með hvassviðri og rigningu,“ skrifaði Eduard Hjalmar Palin, sendiherra Finna á Íslandi og Noregi árin 1950-1958, í skýrslu um fyrstu Íslandsheimsókn sína í júní 1951 sem hann sendi yfirboðurum sínum í finnska utanríkisráðuneytinu. Lýsti hann Íslendingum sem montnum og uppáþrengjandi, og sagðist vonast til þess að þurfa ekki að fara aftur til Íslands.

Greint er frá tilvist skýrslunnar og efni hennar í nýrri bók í Finnlandi eftir fræðimanninn Jussi Pekkarinnen, Kuninkaallisen tammen suojassa, „Í skjóli hins konunglega eikartrés,“ sem fjallar um sögu finnska sendiráðsins í Osló, en það sá einnig um fyrirsvar Finna á Íslandi fram til ársins 1982.

Palin lýsti í skýrslunni fyrstu kynnum sínum af landi og þjóð, en hann var staddur hér á landi til þess að afhenda forseta Íslands embættisbréf sitt. Sagði Palin landið vera skrítna blöndu af gömlum tíma og nýjum, en að það mætti dást að því hvernig Íslendingum hefði tekist að skapa hér sjálfstætt og nútímalegt ríki. Dáðist hann einnig að áhugasemi, þreki og föðurlandsást Íslendinga. Veðrátta landsins og náttúra fór hins vegar fyrir brjóstið á Palin, og sagði hann erfitt að ímynda sér „ömurlegri sýn“ en hraunbreiðurnar sem væru til dæmis á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, þar sem engin tré eða runnar yxu.

Frumstæðir fábjánar

Palin lýsti Íslendingum sem vinalegum og gestrisnum. Engu að síður gætu þeir einnig verið uppáþrengjandi, montnir og „ótrúlega frumstæðir“. Sagði hann lífskjör fólks vera „spartversk“ og það erfið að aðstæður í Litháen, þar sem Palin hafði verið sendiherra frá 1933 til 1940, væru beinlínis „geislandi“ í samanburðinum. Lýsti Palin samræðum sínum við aðra sendiherra, þar á meðal sendimann Breta hér á landi, sem hefði tekið undir að Íslendingar væru svo sem vingjarnlegir, en bætt við að þegar nánar væri að gáð, væru Íslendingar upp til hópa fábjánar. Sagði Palin það hafa verið hreina unun í samanburði við Íslendinga að vera í hópi annarra sendiherra, og bætti við að „guðirnir vissu að það væri ekki vaninn“.

Skýrslunni ekki vel tekið

Palin lauk skýrslu sinni á því að segja að sjaldan hefði hann verið jafnánægður með það að snúa heim og þegar hann var kominn aftur til Oslóar, og að hann vonaðist innilega til þess að hann þyrfti ekki að koma hingað aftur í náinni framtíð.

Í bók Pekkarinnen er sagt að oftar en ekki hafi sendiskýrslur sem þessar farið ólesnar í gegnum kerfið og endað ofan í skúffu. Því hefði hins vegar ekki verið að heilsa um þessa skýrslu, sem þáverandi utanríkisráðherra Finna, Åke Gartz, las og skrifaði hann harðort svar til Palins. Sagði Gartz að skýrslan hefði betur sómt sér sem einkabréf Palins en sem opinber skýrsla á vegum utanríkisþjónustunnar.

Gartz undraðist hvernig Palin gæti leyft sér að koma með fullyrðingar eftir stutta heimsókn, sem hann síðan myndi kannski neyðast til þess að éta ofan í sig aftur við betri kynni. Bætti Gartz við að ef Íslendingar kæmust á snoðir um efni skýrslunnar gætu samskipti ríkjanna lent í slíkum öldudal að nýr sendiherra til Íslands myndi eiga erfitt með að bæta skaðann.

Þær áhyggjur reyndust þó vera ástæðulausar, þar sem Íslendingar fengu aldrei að vita hvaða hug sendiherra Finna bar til landsins, og sjálfur heimsótti Palin landið minnst þrisvar sinnum til viðbótar áður en hann lét af sendiherrastöðu sinni í Noregi árið 1958. Munu skýrslur hans um þær heimsóknir hafa verið varkárari í orðavali.

Lýsti yfir ánægju sinni

Morgunblaðið greindi frá heimsókn Palins til Íslands á baksíðu sinni laugardaginn 16. júní 1951. Er þar greint frá glæstum ferli Palins í utanríkisþjónustu Finna, en hann hafði þá starfað þar í 33 ár. Sagði Palin við blaðið að ekki hefði verið ofsögum sagt af „fegurð landsins og gestrisni þjóðarinnar,“ og væri hann þakklátur fyrir það hversu vel sér hefði verið tekið. Sagði Palin að verkefni neyddu hann til þess að snúa aftur til Noregs, þó að hann „feginn vildi fá tækifæri til að dvelja hjer lengur og ferðast meira um landið“.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert