Á ofsahraða innanbæjar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði á tíunda tímanum í gærkvöldi för bifreiðar sem var ekið á 157 km hraða á Reykjanesbraut, móts við Dalveg. Leyfður hámarkshraðiá þessum slóðum er 80 km/klst.  

Einn ökumaður var stöðvaður á öðrum tímanum í nótt í miðborginni en hann er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni ölvaður.

Um tvö leytið í nótt stöðvaði lögreglan bifreið á Reykjanesbraut við Kaldárselsveg.  Ökumaðurinn grunaður um ölvun við akstur og akstur án réttinda en hann hafði ekki endurnýjað ökuréttindi sín.

 Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með eftirlit með umferð/ölvunarakstri á Bústaðavegi við Perluna frá klukkan eitt í nótt til klukkan hálf þrjú. 

32 bifreiðar voru stöðvaðar og tveir ökumenn kærðir fyrir ölvun við akstur og hafði annar þeirra ekki endurnýjað ökuréttindi sín. Tveir ökumenn reyndust undir refsimörkum og var akstur þeirra stöðvaður, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Ábending frá lögreglu.

Nú er dagurinn farinn að styttast og rökkvar hratt með hverjum deginum sem líður á haustið. Skólastarfið er að byrja og því margir ungir vegfarendur á ferðinni. Vill lögregla minna vegfarendur á að vera vel vakandi í umferðinni.  Reiðhjólamenn eru hvattir til að vera vel sýnilegir en það má gera með endurskinsvesti og yfirfara ljósabúnað sinn á hjólinu. Einnig minnum við gangandi vegfarendur á endurskinsmerkin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert