„Erum að verða nokkuð sátt“

Víðir Reynisson er deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson er deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. mbl.is/Golli

Mörg hundruð manns um landið allt hafa tekið þátt í því að búa íslenskt samfélag sem best undir hugsanleg eldgos í Bárðarbungu. Víðir Reynisson deildarstjóri Almannavarna segist farinn að verða nokkuð sáttur með stöðu mála.

Fulltrúar viðbragðs- og hagsmunaaðila á Austurlandi funduðu með almannavörnum, lögreglu og vísindamönnum í morgun, alls um 40 manns. Víðir segir að fundurinn hafi að mestu verið nýttur til að fara yfir það með hverjum viðbragðsaðila fyrir sig hvað væri búið að gera til undirbúnings og hvort eitthvað stæði út af borðinu. Svipaður fundur var haldinn á Húsavík í gær.

Öskufallsspá birtist strax ef gos hefst

Ekki er teljandi flóðahætta á Austurlandi en að sögn Víðis var talsvert um það rætt hvort flýta ætti smölunum ef ske kynni að öskufall yrði. Bændasamtök Íslands hafa óskað eftir því við almannavarnadeild að gerðar verði öskufallsspár, enda geti reynst of seint að smala fé, ef aska fellur á afrétti.

Víðir segir að gagnasöfnun um hugsanlegt öskufall sé í vinnslu. „Það eru gerðar hermanir á Veðurstofunni, þannig að ef það byrjar að gjósa þá fáum við öskufallsspár um leið, en það er óvíst hvort mikið gagn sé af þeim núna. Við erum að horfa á söguna, um hvernig aska úr svipuðum gosum hefur dreifst og fáum upplýsingar um það frá vísindamönnum.“

Ekki er hinsvegar hægt að segja fyrir víst hvort og hvar aska gæti fallið fyrr en gos hefst því það veltur bæði á því hvar gosið kæmi upp og eins hvernig veðrið er. „En Veðurstofan byrjar að keyra líkön fyrir öskufallsspár sem verða uppfærðar mjög reglulega ef af verður, um leið og gos kemur upp.“

Hundruð manna um allt land í undirbúningsvinnu

Engin sérstök viðbragðsáætlun var til um þá vá sem stafar af eldgosi í norðanverðum Vatnajökli og jökulhlaupi, enda ekki verið gert áhættumat. Mikil vinna hefur hinsvegar farið fram á öllum vígstöðvum síðustu daga, til að tryggja að hægt verði að bregðast við hverju því sem upp kann að koma.

Aðspurður um fjölda þeirra sem komið hafi að málum segir Víðir að þeir séu ansi margir. „Það eru tugir stofnana sem við erum í samskiptum við, þar sem er fjöldi manna að vinna að þessu. Ef við horfum yfir allt landið eru mörg hundruð manns að gera fátt annað en að undirbúa samfélagið fyrir þetta.“

Daglegir fundir verða áfram með vísindamönnum til að fylgjast með þróuninni, en sjálfri undirbúningsvinnunni er að ljúka. „Við teljum okkur vera að koma að mörkum þeirra ráðstafana sem eðlilegt er að grípa til, miðað við það ástand sem er og erum að verða nokkuð sátt,“ segir Víðir.

Þróun skjálftavirkni í norðanverðum Vatnajökli/Bárðarbungu.
Þróun skjálftavirkni í norðanverðum Vatnajökli/Bárðarbungu. mbl.is/Elín Esther
Frá fundi vísindaráðs almannavarna um stöðu mála í vegna jarðhræringanna …
Frá fundi vísindaráðs almannavarna um stöðu mála í vegna jarðhræringanna í Bárðarbungu. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert