Mönnun gengur vel

Börn að leik í frístundaheimilinu Árseli. Mynd úr safni.
Börn að leik í frístundaheimilinu Árseli. Mynd úr safni. Árni Sæberg

Alls hafa 3.589 umsóknir borist Reykjavíkurborg um frístundarheimili og 108 umsóknir í frístundaklúbba fyrir fötluð börn og ungmenni. Samkvæmt upplýsingum frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar gengur vel að manna frístundaheimilin og eru þau jafnan fullmönnuð í september.

Samkvæmt tölum sem birtust í vikunni höfðu 1.846 börn verið tekin inn í frístundaheimili og 29 í frístundaklúbba. Áætlað var að fyrir helgina myndu öll börn á bið eftir frístundarheimili í Grafarvogi, Kjalarnesi, Miðborg, Hlíðum, Laugardal og Háaleiti vera tekin inn á frístundarheimili. 

Í Vesturbæ og Breiðholti eru um 40% umsækjenda á bið en um 60% umsækjenda í Árbæ og Grafarholti en er nemendafjölgun í grunnskólum er þar langmest í ár. 

Á sama tíma árið 2013 voru 981 á biðlista en þá voru umsóknir færri en nú. Samkvæmt upplýsingum frá skóla- og frístundarsviði breytist þessi staða hratt þessa dagana á meðan mönnun stendur yfir.  

Þann 18. ágúst var send fyrirspurn til stjórnenda á skóla- og frístundasviði um stöðu í starfsmannamálum. Alls átti þá eftir að ráða 63 stöðugildi í frístundastarfi – af þeim vantar um 18 í starf með fötluðum börnum og ungmennum. Yfirleitt er um 50% störf að ræða.

38 frístundarheimili eru rekin af Reykjavíkurborg og eru stöðugildi þeirra breytileg eftir barnafjölda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert