Stóri skjálftinn vegna sigs í öskjunni

Bárðarbunga og Jökulsá á Fjöllum.
Bárðarbunga og Jökulsá á Fjöllum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Skjálftavirkni í kringum Bárðarbungu sýnir engin merki um að það dragi úr umbrotum. 25 km gangur undir Dyngjujökli á 5-10 km dýpi hefur lítið lengst. Aflögunarmælingar sýna færslu á landinu um 12 cm undanfarna daga. Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands nú í hádeginu.

Virkni sem hófst aðfaranótt laugardags 16. ágúst hefur haldið áfram óslitið og ekki eru merki um að henni sé að ljúka. Um 25 km langur berggangur hefur myndast undir Dyngjujökli.  Gangurinn hefur lítið lengst en kvikuflæði er eftir honum og merki um að hann sé að greinast í norðausturendanum.

Jarðskjálfti af stærðinni 4,7 mældist í gærkvöldi kl. 23:50 í Bárðarbunguöskjunni á 4 km dýpi. Þessi stóri skjálfti var á svipuðum slóðum og skjálftar stærri en 3 sem mældust í gær. Stórir skjálftar í Bárðarbungu eru svörun við því sigi sem hefur orðið í öskju hennar frá upphafi brota ásamt spennubreytingu í bergganginum. Enn er mikil virkni og því ekki hægt að útiloka að atburðarásin leiði til eldgoss.

Frá upphafi virkninnar hafa mælst færslur á yfirborði sem eru yfir 14 cm á Dyngjuhálsi, um 15-20 km frá bergganginum. Færslurnar eru mældar með GPS-mælum (aflögunarmælingar). Til samanburðar má benda á að Ísland gliðnar að meðaltali um tæpa 2 cm árlega. 

Áfram er verið að setja upp mælitæki í samstarfi innan FutureVolc-verkefnisins sem gefa mikilvægar upplýsingar sem nýtast við eftirlit og greiningu.

Ný GPS-stöð í Kverkfjöllum og skjálftamælir senda upplýsingar í rauntíma á vefinn. Færanlegar ratsjár eru við Syðri-Hágöngu og Hótel Laka, sem eru á styttri bylgjulengd en fastar ratsjár og nema ösku og annað í andrúmsloftinu betur en á minna svæði. Föstu ratsjárnar eru á Egilsstöðum og við Keflavíkurflugvöll.

Samtúlkun GPS og jarðskjálftamælinga er lykilþáttur í greiningu á virkninni og samvinna vísindamanna Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og samstarfsaðila í FutureVolc-rannsóknarverkefninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert