Búa sig undir eldgos

Bárðarbunga er friðsæl að sjá á yfirborðinu en undir jökulhettunni …
Bárðarbunga er friðsæl að sjá á yfirborðinu en undir jökulhettunni skelfur jörðin. mbl.is/Árni Sæberg

Flugvél sem flaug yfir Bárðarbungu rétt um kl. 12 sá engin merki um gos í jöklinum. Mikil skjálftavirkni hefur verið við Bárðarbungu síðustu klukkutíma og segir Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar, að berggangurinn undir jöklinum hafi lengst til norðurs um fimm kílómetra í morgun.

Vísindamenn á Veðurstofu Íslands búa sig undir eldgos, en Melissa segir of snemmt að fullyrða að það fari að gjósa við Bárðarbungu á næstu klukkutímum. Undanfarna daga hafi vísindamenn séð virkni á svæðinu aukast og minnka á víxl. Skjálftavirkni sé hins vegar mjög mikil og greinilegt að kvika sé á hreyfingu til norðurs. Ekki séu komin fram ótvíræð merki um að kvikan sé að brjóta sér leið upp úr kvikuhólfinu.

Það að berggangurinn er að lengjast til norðurs þýðir að ef það verður gos kemur það upp á stað þar sem er þynnri jökul en ef gosið kæmi upp í Bárðarbunguöskjunni. Kristín Jónsdóttir jarðfræðingur sagði í samtali við RÚV í hádeginu að jökullinn væri 200-400 metra þykkur við jökulsporðinn og eldgosið gæti brætt jökulinn það mikið á fáeinum klukkutímum að það næði upp á yfirborðið. Hún sagði líka að ef það myndi gjósa svona norðarlega yrði hlaupið væntanlega minna en ef gosið kæmi upp innar á Vatnajökli.

Flugvél Landhelgisgæslunnar leggur af stað með vísindamenn upp að Bárðarbungu um kl. 13.

Aukin virkni og órói hófst upp úr klukkan 10 í morgun á því svæði í Vatnajökli þar sem jarðskjálftavirkni hefur verið undanfarna daga. Talið er að gangurinn undir Dyngjujökli sé að lengjast til norðurs. Samhæfingarstöðin fylgist náið með framvindunni og mun koma með frekari upplýsingar þegar þær berast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert