Kröflulína 2 hugsanlega í hættu

Kröflulína 2 og Kópaskerslína 1 gætu verið í hættu, aukist …
Kröflulína 2 og Kópaskerslína 1 gætu verið í hættu, aukist vatnsmagn í ám vegna hugsanlegs goss í Dyngjujökli. mbl.is/GSH

Kröflulína 2 og Kópaskerslína 1 gætu verið í hættu, aukist vatnsmagn í ám vegna hugsanlegs goss í Dyngjujökli. Viðbúnaðaráætlanir hafa verið virkjaðar og mannskapur er kominn í viðbragðsstöðu.

Beðið er átekta eftir nánari upplýsingum um þróun gossins og flóðs sem því kann að fylgja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti. 

„Neyðarstjórn Landsnets kom saman kl 15.15 í dag vegna tilkynningar frá Almannavörnum um að gos væri hafið í Dyngjujökli.  Miðað við fregnir er um lítið gos að ræða en búast má við að flóðvatn skili sér í Jökulsá á Fjöllum. 

Undanfarna daga hafa Landsnet og Rarik komið upp varavélum sem mögulegt verður að ræsa með skömmum fyrirvara ef til straumleysis kemur vegna skemmda á Kópaskerslínu.  Vegna hringtengingar byggðalínu er ekki gert ráð fyrir að bilun á Kröflulínu 2 hafi áhrif á afhendingu til notenda,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert