Búnaðurinn sem bilaði var gamall

Bilunin kom upp í búnaði símstöðvar Mílu á Barðaströnd.
Bilunin kom upp í búnaði símstöðvar Mílu á Barðaströnd. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúar Vestfjarða hafa orðið fyrir truflunum á símasambandi, net og sjónvarpi í dag. Truflanirnar eru þó mun minni en í gær, en þá  misstu viðskiptavinir Símans á stórum hluta Vestfjarða samband í rúmlega sex klukkustundir. Sigurrós Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Mílu, segir búnaðinn vera gamlan og til standi að skipta honum út.

Bilunin varð klukkan rúmlega hálf tíu í gærmorgun og komumst viðskiptavinir Símans ekki í samband fyrr en upp úr klukkan fjögur síðdegis. Sambandsleysið raskaði daglegu lífi margra, sérstaklega þar sem síminn var óvirkur og netið lá niðri. Vandræði voru með afgreiðslu í verslunum og sjálfafgreiðslustöðvum bensíns.

Enn unnið að viðgerð á Vestfjörðum

Sigurrós segir að sambandsleysi gærdagsins hafi komið til vegna bilunar í búnaði símstöðvar Mílu á Barðaströnd. Hún segir að eitthvað hafi verið um truflanir í dag og eru viðgerðarmenn því farnir aftur vestur til að ganga endanlega frá viðgerð. Aðspurð um truflanir dagsins segir Sigurrós að nokkurn tíma taki fyrir kerfið að jafna sig aftur eftir bilun af þessu tagi.

Aðspurð um búnaðinn sem bilaði í gær segir Sigurrós að um eldri búnað hafi verið að ræða sem stendur til að skipta út. Hún bendir á að fjarskiptabúnaður úreldist smátt og smátt, hér á landi sem erlendis, en stöðugt sé unnið að uppfærslu og útskiptingu á búnaði.

„Nú stendur yfir verkefni á Vestfjörðum og á öðrum stöðum á landinu sem snýst um að skipta um eldri búnaði, en stundum bilar búnaðurinn áður en hægt er að skipta honum út,“ segir Sigurrós í samtali við mbl.is.

Hugsanlega átt að bregðast öðruvísi við

Viðgerð gærdagsins tók í heildina um sjö klukkustundir en fara þurfti frá Reykjavík með varahluti. Flogið var með viðgerðarteymi með þyrlu en þá átti eftir að finna út hver bilunin var.

Sigurrós viðurkennir að fyrirtækið hefði hugsanlega átt að bregðast fyrr við og jafnvel öðruvísi við og gera ráðstafanir svo viðskiptavinir yrðu ekki sambandslausir til lengri tíma, líkt og í gær. „Það má alltaf gera betur og við drögum lærdóm af þessu.“

Frétt Morgunblaðsins: Verða að tryggja að samband komist á.

Frétt mbl.is: Full fjarskiptaþjónusta komin á Vestfirði. 

Frétt mbl.is: Sambandslaus við umheiminn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert