Disney prinsessur í fararbroddi

Jón Axel segir viðtökur við fyrstu bókinni góðar þó það …
Jón Axel segir viðtökur við fyrstu bókinni góðar þó það taki tíma að fóta sig á þessum nýja markaði.

Edda útgáfa, sem gerði samning við Disney í Norður-Ameríku um bókaútgáfu í Bandaríkjunum og Kanada, gaf út sýna fyrstu bók á amerískum bókamarkaði 22. apríl, Go Green - A Family Guide to a Sustainable Lifestyle. Tveir titlar eru væntanlegir í október og eru útgefendur Eddu farnir að skipuleggja næsta árið.

Jón Axel Ólafsson, útgefandi hjá Eddu, segir viðtökurnar hafa verið góðar þó það taki tíma að fóta sig á þessum nýja markaði. Þá segir hann sölu á fyrsta titlinum hafa staðist væntingar útgáfufyrirtækisins og að hann eigi von á að bókin haldi áfram að seljast enda er sölutímabilið í Bandaríkjunum mun lengra en þekkist hér á landi. „Við erum einnig að undirbúa innreið bókarinnar á skólamarkað svo við erum bara alsæl með það.“

Væntingar bundnar við prinsessurnar

Sala á næstu bókum er nú þegar farin af stað og verða þá Disney prinsessur í fararbroddi. Búist er við því að bókin Frozen Hairstyles: The Ultimate Guide to Anna and Elsa’s Hairstyles komi út í byrjun október. Þar sem finna sýnikennslu á hinum ýmsu hárgreiðslum aðalpersóna teiknimyndarinnar Frozen, sem slegið hefur rækilega í gegn um allan heim. Disney Princess Hairstyles: 39 Amazing Hairstyles With Step by Steyp Images fylgir henni svo eftir.

Jón Axel og félagar í Eddu bera hóflega miklar væntingar til næstu bóka. „Við þurfum að selja hæfilega mikið magn til þess að verið verðum glöð en gerum okkur þó engar vonir um að þetta skipti milljónum eintaka.“ Forsala á bókunum er núþegar hafin og gengur hún vel að sögn Jóns Axels.

Undirbúningur hafinn fyrir næsta ár

Þá er undirbúningur fyrir vorið 2015 hafinn með tilheyrandi markaðsstarfi sem Jón Axel segir frábrugðið því sem þekkist hér á landi. Þannig sé allt markaðsstarf unnið með mun meiri fyrirvara í Bandaríkjunum og því sé unnið með langtímaáætlanir. „Við vinnum eftir þeirri áætlun sem liggur fyrir og vinnum þannig hægt og rólega að okkar markmiðum“ sagði Jón Axel en markmið Eddu er að verða fullvaxta fyrirtæki sem framleiðir og dreifir bókum í rafrænu og prentuðu formi í Bandaríkjunum og Evrópu.

Jón Axel og félagar byrja nýja árið af krafti en stefnt er að því að gefa a.m.k fjórar bækur út í febrúar og mars. Þar má nefna Disney Go Green: Actions For Saving the Planet sem kemur út í febrúar og matreiðslubók eftir Yasmine Olson, International Cooking Made Easy: Delicious Meals For Every Occasion, sem kemur út í byrjun mars á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert