Eldur, ís og ást í pílagrímsferð

Þau eru hamingjusamt tveggja heima fólk, Rúrik og Kathie.
Þau eru hamingjusamt tveggja heima fólk, Rúrik og Kathie. mbl.is/Golli

Hún var 24 ára þegar hún lenti í alvarlegu bílslysi aðeins tveimur vikum eftir að hún missti bróður sinn úr krabbameini. Þegar hún áttaði sig á hversu naumlega hún hefði sloppið lifandi úr slysinu, að hún hefði fengið annað tækifæri, ákvað hún að hætta í vinnunni, gefa nám sitt upp á bátinn og hverfa frá lífi sínu í Bandaríkjunum til að dvelja eitt ár á Íslandi, þangað sem bróðir hennar hafði þráð að komast. Katherine Loveless skráði sögu pílagrímsferðar sinnar í formi dagbókarbrota og ljósmynda í afar persónulegri bók sem nýlega kom út.

Nú er komið nóg af ótta. Ótta við að vera ein, ótta við að mistakast, ótta við að lifa því lífi sem ég vil. Óttinn er kæfandi, það er kominn tími til að anda. Það er kominn tími til að fara til Íslands.“ Svo segir meðal annars í fyrstu dagbókarbrotum Katherinear Loveless í bókinni, A Year in Fire and Ice. Þar rekur hún sögu sína með hugleiðingum í réttri tímaröð og ljósmyndum frá ársdvöl á Íslandi. „Þessi pílagrímsferð mín til Íslands hefur verið ótrúlegt ævintýri. Ég kom hingað í febrúar í fyrra með hjartað fullt af sorg og söknuði vegna fráfalls bróður míns. Hann var ári yngri en ég og við vorum mjög náin. Við það að missa hann og lenda skömmu síðar í alvarlegu bílslysi, upplifði ég sterkt hversu brothætt lífið er. Það vakti mig á einhvern hátt til lífsins, fékk mig til að átta mig á nauðsyn þess að lifa lífinu til fulls, hverja stund.“

Fann stóru ástina á Íslandi

Katie, eins og hún er oftast kölluð, segir að alls óvænt hafi ferðalagið og gerð bókarinnar þróast í ástarsögu. „Á Íslandi kynntist ég stóru ástinni, Rúrik Karli Björnssyni ljósmyndara. Ég hafði verið hér í hálft ár þegar ég hitti hann og við fórum saman í ljósmyndaferð út á land. Hann bauðst til að leiðbeina mér við myndatökurnar, því ég hafði aðallega tekið portrettmyndir af fólki heima í Bandaríkjunum og var ekki vön að taka landslagsmyndir. Að taka myndir úti í náttúrunni á Íslandi getur verið mjög ögrandi verkefni. Eitt augnablik er myndefnið fullkomið, birtan, skýin, veðrið, en eftir andartak er það allt breytt.“ Hún varð örlagrík ljósmyndaferðin sú, því Katie og Rúrik urðu ástfangin og hann bað hennar í mars á þessu ári í íshelli í Vatnajökli. „Við ætlum að gifta okkur í næsta mánuði og flytja til Bandaríkjanna. Svo kemur í ljós hvert lífið leiðir okkur. Ég vil gjarnan flytja aftur til Íslands eftir nokkur ár, ég elska þetta land,“ segir Katie sem á erfitt með að gera upp á milli staða á Íslandi þegar hún er spurð að því hver sé hennar uppáhalds. Hún nefnir þó Jökulsárlón, enda er myndin af henni sem prýðir bókarkápuna, tekin þar. „Þessa mynd tók ég sjálf, áður en ég kynntist Rúrik. Ég stillti vélina á tíma og hljóp fram fyrir linsuna. Ég er mjög hrifin af allri suðurströnd Íslands, landslagið þar er svo fjölbreytt og birtan á þessu landi er aldrei eins.“

Hlustuðu saman á Sigur Rós á dánarbeði bróðurins

Katie segir að bróðir hennar hafi haft mikla ferðaþrá og að hann hafi farið í nokkur bakpokaferðalög á sinni stuttu ævi. „Hann vildi skoða heiminn og ég fór stundum með honum. Draumur hans var að ferðast til Íslands og þess vegna fannst mér ég verða að koma hingað. Hans vegna og mín vegna. Viku áður en hann dó kom út plata með Sigur Rós, sem var ein af hans uppáhaldshjómsveitum, og við hlustuðum öll saman á plötuna inni hjá honum. Eftir að ég kom hingað og sá alla þessa náttúrufegurð sannfærðist ég um að hann hefði elskað þetta land.“ Hún segir bróður sinn hafa verið ungan og hraustan áður en hann veiktist og fyrir vikið hafi hann verið lengi að deyja. „Þegar kom að endalokunum og hann var hættur að nærast, var okkur sagt að það tæki hann viku að deyja en það tók hann heilan mánuð. Þetta langa dauðastríð var mjög erfitt ferli, bæði fyrir okkur fjölskylduna og hann. Það teygðist óbærilega á kveðjustundinni. Ég var úrvinda eftir þetta allt saman og ég varð að fara í burtu.“

Lærði að lifa með sorginni

„Að koma hingað og gera þessa bók, bæði myndirnar og textann, hefur hjálpað mér mjög mikið í mínu sorgarferli. Ég gaf mér rými til að syrgja og takast á við lífið á nýjan leik. Ég vona sannarlega að bókin sýni fólki sem þarf að takast á við missi og sorg að tíminn vinnur með því. Ég veit af eigin reynslu að fyrsta árið er afskaplega erfitt og að sorgin og söknuðurinn fer aldrei frá mér. En ég læri að lifa með þessu.“

Tók áhættuna og lifir til fulls

Á bókarkápu stendur að þetta sé saga Katherinar í formi ljósmynda um missi, sorg, ferða- og ævintýraþrá og það að verða ástfangin og taka áhættuna og lifa til fulls fögru lífi. Bókin er tileinkuð draumum og löngunum sem búa innra með öllum. Lesendur eru hvattir til að taka áhættuna og sleppa löngunum sínum lausum.

Á morgun, fimmtudag, verður útgáfuhóf í bókabúð Máls og menningar við Laugaveg í Reykjavík kl. 17.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert