Hafa þungar áhyggjur af framtíð DV

mbl.is/Sverrir

Blaðamenn á DV hafa sent frá sér yfirlýsingu í tengslum við þær deilur sem standa yfir um eignarhald á miðlinum. Þeir undirstrika mikilvægi þess að fjölmiðillinn verði áfram frjáls og óháður. Þeir segjast ennfremur hafa þungar áhyggjur af framtíð fjölmiðilsins þar sem ekki liggi nákvæmlega fyrir hvaða aðilar eru á bak við uppkaup á hlutafé í félaginu.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Blaðamenn á DV undirstrika mikilvægi þess að fjölmiðillinn verði áfram frjáls og óháður og að ekki verði vegið að ritstjórnarlegu sjálfstæði þeirra þrátt fyrir yfirvofandi breytingar á eignarhaldi og stjórn útgáfufélagsins. Blaðamenn á DV hafa þungar áhyggjur af framtíð fjölmiðilsins þar sem ekki liggur nákvæmlega fyrir hvaða aðilar eru á bak við uppkaup á hlutafé í félaginu. Blaðamenn á DV sendu frá sér yfirlýsingu um miðjan mánuðinn þar sem áhyggjum af ritstjórnarlegu sjálfstæði var lýst og eru þær áhyggjur áréttaðar enn frekar með þessari yfirlýsingu.

Tilkynningin er meðal annars send út nú þar sem fyrir liggur að einn aðili, Björn Leifsson, sem keypt hefur hlutafé í DV á síðustu dögum, hefur gefið það út að tilgangurinn með kaupunum sé að hann vilji „taka þátt í að hefja blaðið að nýju til vegs og virðingar í samfélaginu“. Liður í þessari viðleitni Björns er að skipta um ritstjóra á DV og sagði hann orðrétt við fjölmiðla: „Ef ég get haft einhver áhrif á það að koma Reyni Traustasyni frá þá er það hið besta mál. Hann er stórhættulegur mannorðsmorðingi.“ Orð Björns benda til þess að hann sé ekki sáttur við núverandi ritstjórnarstefnu blaðsins og vilji hafa áhrif á hana í gegnum eignarhald sitt á útgáfufélaginu. Þá benda orð Björns til þess að hann sé gagngert að kaupa hlutabréf í DV til að stuðla að því að nýr ritstjóri verði ráðinn til blaðsins.

Blaðamenn DV harma þessi ummæli Björns og mótmæla þeim.

Í fyrsta lagi þykir okkur ekki við hæfi að nýir hluthafar í útgáfufélaginu gefi það út að þeir séu ósáttir við ritstjórnarstefnu blaðsins og vilji breyta henni í gegnum eigendavald sitt. Þau orð ein og sér gefa blaðamönnum tilefni til að óttast að vegið verði að sjálfstæði ritstjórnarinnar í kjölfar breytts eignarhalds. Í öðru lagi er ekki boðlegt að nýr hluthafi í DV ehf. fjárfesti í fjölmiðlinum til þess eins að losna við ritstjórann og gefi það út blákalt að það sé ein ástæða fjárfestingarinnar. Þau orð Björns gefa tilefni til að óttast að nýir hluthafar í DV komi ekki til með að virða ritstjórnarlegt sjálfstæði blaðamanna á fjölmiðlinum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert