Keyrt á bræður á sömu gangbraut

Erla Guðmundsdóttir á tvo syni sem keyrt hefur verið á á sömu gangbrautinni. Ábendingum um að bæta umferðaröryggi hefur verið komið til bæjaryfirvalda en án árangurs. Gangbrautin liggur yfir einu aðkeyrsluna að Vatnsendaskóla og þykir hún liggja of nálægt hringtorgi þar sem útsýni er skert.

Keyrt var á sjö ára gamlan son Erlu í morgun en í maímánuði lenti tíu ára sonur hennar í því sama. Hún þakkar fyrir að ekki hafi farið verr en spyr hvort næsta barn verði jafnheppið.

Dagmar Guðmundsdóttir er einnig íbúi í Vatnsendahverfi og á börn í skólanum, hún varð vitni að því þegar ekið var á son Erlu í maí og segist hafa heyrt af öðrum tilfellum þar sem ekið hefur verið á börn á sama stað og því hefur hún reynt að koma því á framfæri við bæjaryfirvöld að umferðaröryggi við gangbrautina sé verulega ábótavant.

Gangbrautin segja þær að sé of nálægt hringtorginu og yfirsýn bílstjóra ekki næg þar sem stór mön byrgir sýn að gangbrautinni og ekki sé hægt að sjá yfir hringtorgið sjálft. Þá hefur Dagmar bent á að öruggara væri að færa gangbrautina fjær hringtorginu en best væri að fá þar undirgöng líkt og hefur verið gert á öðrum sambærilegum stöðum.

mbl.is hitti þær Erlu og Dagmar við gangbrautina sem er á mótum Vatnsendavegar og Breiðahvarfs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert