„Ritstjórnin er hálflömuð“

Reynir Traustason ritstjóri DV
Reynir Traustason ritstjóri DV mbl.is/Sigurður Bogi

Óvissuástand ríkir á fréttastofu DV þessa dagana en miklar deilur hafa verið í stjórn DV undanfarna mánuði sem leiddu til þess að Þorsteinn Guðnason var settur af sem stjórnarformaður fyrirtækisins. Í kjölfarið hófst barátta um fyrirtækið sem stendur enn yfir.

Þorsteinn reynir nú ásamt Sigurði G. Guðjónssyni, hæstaréttarlögmanni, að ná meirihluta í hluthafahópi DV fyrir hluthafafund fjölmiðilsins næstkomandi föstudag. Í pistli Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns DV, lýsir hann undrun sinni á aðkomu Sigurðar að baráttunni um DV í ljósi þess að hann hefur margsinnis unnið með þekktum fjárfestum sem hafa verið til umfjöllunar í blaðinu auk þess sem hann hefur höfðað tvö meiðyrðamál gegn fjölmiðlinum fyrir hönd skjólstæðinga sinna.

Sigurður svaraði pistli Inga Freys með öðrum þar sem hann segist ekki vinna að yfirtöku á DV ehf. og enginn þeirra sem hann vinnur fyrir. „Félög sem rekin eru með tapi ár eftir ár, eins og reyndin hefur verið með DV ehf., eru ekki góður kostur fyrir fjárfesta,“ segir Sigurður.

Hann nefnir einnig að Reynir hafi slegið lán eftir lán til að geta lagt fram hlutafé í DV ehf. í nafni Ólafstúns ehf. og sjálfs sín. „Þegar einstaklingar eða lögaðilar standa ekki við skuldbindingar sínar kann að verða að ganga að eignum þeirra. Ólafstún ehf. á hluti í DV ehf. Kannski þurfa lánveitendur félagsins og Reynis Traustasonar að ganga að þessum eignum, ef kalla má eignir. Best væri auðvitað fyrir þá að fá lánsféð greitt. Kannski getur Reynir Traustason töfrað fram fé fyrir aðalfundinn þannig að hann geti áfram verið kóngur í ríki sínu.

„Orð manns sem er ekki með fulla sjálfsstjórn“

Annað þeirra meiðyrðamála Sigurður hefur höfðað er mál Björns Leifssonar og bíður það meðferðar í dómskerfinu. Þá hafa Laugar ehf. sem eru í eigu Björns keypt 4,42% hlut í DV ehf. Þetta staðfesti Björn í samtali við Vísi þar sem hann fór ófögrum orðum um Reyni Traustason, ritstjóra og stjórnarmann í DV ehf. „Ef ég get haft einhver áhrif á það að koma Reyni Traustasyni frá þá er það hið besta mál. Hann er stórhættulegur mannorðsmorðingi,“ sagði Björn.

Reynir Traustason er undrandi á þessum ummælum Björns og telur þau lýsandi fyrir hann sjálfan. „Þetta kom mér vissulega á óvart, hann ólst upp í næsta húsi við mig, en þessi orð lýsa honum sjálfum dálítið, þetta eru orð manns sem er ekki með fulla sjálfsstjórn,“ segir Reynir. Þá telur hann reiði Björns beinast að sér vegna fréttaflutnings DV af svokölluðu útrásarævintýri hans.

Reynir segist ekki óttast um stöðu sína innan fyrirtækisins þó hann deili áhyggjum starfsmanna sinna um að um fjandsamlega yfirtöku sé að ræða. „Það eru allir starfsmenn innan fyrirtækisins meðvitaðir um þessa ógn. Ritstjórnin er hálflömuð. Ég er að gera allt aðra hluti ef ég vil vera að gera, í stað þess að vera að skrifa fréttir er maður að leita undir rúminu sínu að óvinum sínum.“

„Frjáls fjölmiðlun verður ekki drepin með þessum hætti“

Reynir segist renna blint í sjóinn hvað varðar hluthafafundinn á föstudaginn. „Ég veit ekki hvað gerist þar en ég mun reyna að tryggja það að við höfum sýn yfir það sem þessir menn eru að aðhafast. Frjáls fjölmiðlun verður ekki drepin með þessum hætti,“ segir Reynir. „Ef einhver heldur að hann sé að fara að sparka mér út úr þessum bransa þá er það mikill misskilningur og ég mun mæta mönnum hvar sem er, hvenær sem er.“

Björn Leifs­son og Haf­dís Jóns­dótt­ir ásamt börn­um sín­um, Brigittu Líf …
Björn Leifs­son og Haf­dís Jóns­dótt­ir ásamt börn­um sín­um, Brigittu Líf Björns­dótt­ur og Birni Boða Björns­syni á Just­in Timberla­ke-tón­leik­un­um. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert