Rokkað á húsþökum með frið að „vopni“

Akureyrarvaka
Akureyrarvaka

Bæjarhátíðir ætti endilega að nýta til að gleðjast og skemmta sér. Þær eru að sama skapi ágætis vettvangur til að beina sjónum að því sem efst er á baugi í bæjarfélaginu, samfélaginu og heiminum sjálfum. Skipuleggjendur Akureyrarvöku vilja hafa friðarboðskap og samhygð að leiðarljósi og munu ekki sprengja flugelda á hátíðinni af virðingu við þá sem þjást í kúlnahríð og sprengjuregni í stríði.

Næstu helgi, dagana 29.-30. ágúst, verður afmæli Akureyrarbæjar fagnað með mikilli hátíð. Segja má að Akureyrarvaka, eins og hátíðin nefnist, hafi náð að festast í sessi í bæjarlífinu enda verið haldin síðustu helgina í ágústmánuði síðan árið 2002. Íbúar sjá um stóran hluta dagskrárinnar en um skipulagningu sjá þau Jón Gunnar Þórðarson, leikstjóri og leikskáld, og Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri Akureyrarstofu. Þau tvö hafa í sameiningu skipulagt Akureyrarvöku með djúpan boðskap og sterk skilaboð sem eiga erindi við fólk innanlands sem utan. Sannfærð um að bæjarhátíð á Norðurlandi geti haft friðsamleg áhrif á heiminn skipulögðu þau hátíð sem verður með óvenjulegu sniði, umhverfisvæn og ef vel tekst til: Full af manngæsku, kærleika og friði. Og auðvitað skemmtileg!

Almenning fyrir almenning

Að sögn Jóns Gunnars þurfa bæjarhátíðir ekki endilega að vera kostnaðarsamar og til að halda kostnaði í lágmarki er vissulega þörf á drjúgum skammti af útsjónarsemi og þolinmæði svo ekki sé minnst á gott samstarf og þátttöku íbúa, bæjarfélagsins og skipuleggjenda.

Ár hvert er valið þema fyrir hátíðina og á síðasta ári var það „fjölmenning“ og gátu Norðlendingar fræðst enn betur um það fjölþjóðlega samfélag sem þar hefur myndast. „Þetta var mjög gaman vegna þess að Akureyringar eru í raun frá sextíu þjóðlöndum og þar sem Akureyrarvaka snýst um fólkið sem býr í bænum var virkilega gaman að sjá þá fjölmenningu sem hér er,“ segir Jón Gunnar. „Það er mikilvægt að miðla þessari menningu og það gerir samfélagið fjölbreyttara og skemmtilegra.“

Í ár er þemað „almenning fyrir almenning“ og varð það til eftir hugleiðingu um það hvað menning er í raun og veru.

„Í rauninni er allt menning en það er bara spurning hvernig þú berð það fram. Menning er ekki fyrir litla útvalda hópa sem eru vanir því að njóta leikhúss eða einhvers annars heldur er menning fyrir alla. Þess vegna ættu allir að finna eitthvað fyrir sig,“ segir Jón Gunnar.

Lautarferð og þaktónleikar

Hátíðin hefst ekki í miðbæ Akureyrar heldur er hugmyndin sú að hún hefjist í hverfum íbúanna eða jafnvel ofan við bæinn, uppi á Súlum. Smám saman færast hátíðarhöldin niður í miðbæ þar sem þau ná hámarki um kvöldið. „Á laugardeginum hefst hátíðin í hverfum bæjarins, í almenningsgörðunum þar sem farið verður í lautarferðir. Íbúar eru hvattir til að koma með mat með sér og kannski gítar í hönd og troða upp að eigin frumkvæði. Nokkurn veginn eins og á hverfishátíðum í London, til dæmis.

Þeir sem vilja taka þátt í allri dagskránni geta farið í skipulagða göngu upp á Súlur klukkan níu um morguninn. Þá byrja þeir daginn uppi á fjallstoppi og feta sig svo nær miðbænum eftir því sem líður á daginn,“ segir Jón Gunnar.

Hugmyndin með því að byrja í hverfunum er að efla nágrannakærleikann og fá íbúa til að hugleiða hverjir þeir sjálfir eru, hverfið þeirra og hverjir nágrannar þeirra eru.

Horfðu til himins

Dagskráin er æði fjölbreytt og þétt. Ógerningur væri að telja upp allt sem á dagskrá Akureyrarvöku er en hana má í heild skoða á vefsíðu Akureyrarstofu, www.visitakureyri.is. Þó verður að nefna nokkra dagskrárliði, eins og listgjörninga sem verða úti um allan bæ, vísindasmiðju fyrir unga fólkið í stað uppblásinna hoppkastala, tónleika, draugavöku, tískuvöku og dans. Að þessu sinni verða engin svið reist fyrir þá tónleika sem haldnir verða yfir daginn en í staðinn verða nýjar leiðir farnar sem kosta minna og krefjast ekki sama umstangs og uppsetning sviðs. „Svið eru mjög kostnaðarsöm og pallbílarnir með pallsögunum eru frekar ljótir og eitthvað sjoppulegt við það að halda svona hátíð og vera endalaust að opna einhverja pallbíla. Í staðinn ætlum við að nýta öll þessi fallegu hús og húsþökin geta nýst sem svið. Það verða því rokktónleikar á húsþökum og á svölum húsa í göngugötunni,“ segir Jón Gunnar. Það er því vel við hæfi að dagskrárliðurinn nefnist „Horfðu til himins“ því tónlistin kemur að ofan.

Peningar ekki brenndir í ár

Tíu vegglistaverk verða máluð um helgina og verða minnisvarði um hátíðina um óákveðinn tíma. Eitt verkanna mun listamaðurinn Guido Van Helten mála á 200 fermetra veggflöt, annað verður á stórum vegg í Listagilinu af skáldinu og ljósmóðurinni Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum en ýmsir koma að listaverkunum með einum eða öðrum hætti. Til að mynda gefur Slippfélagið málninguna og Íslenskir málarar sjá um að grunna vegginn svo allt sé klárt fyrir listamennina.

Það má því sjá að með aðstoð og þátttöku margra er hægt að halda kostnaði niðri. „Það er ekki verið að spandera peningum á þessari hátíð og litlir fjármunir settir í þetta því hátíðin er sameiginlegt átak bæjarbúa. Starf okkar Sóleyjar snýst í raun mest um að taka á móti hugmyndum bæjarbúa og finna þeim farveg,“ segir Jón Gunnar.

Alla jafna lýkur Akureyrarvöku með veglegri flugeldasýningu en þannig verður það ekki í ár. „Það er stór spurning hvernig eigi að klára svona stóra og mikla dagskrá. Það væri eitthvað skrýtið við það að sprengja og fagna, bæði við það að brenna peninga og svo hugsunin um að gleðjast yfir sprengingum á þessum tímum. Á meðan fréttatíminn er fullur af skelfilegum fréttum af stríði. Núna þurfum við að vera dálítið alheimsmiðuð. Við erum Akureyringar, Íslendingar og jarðarbúar,“ segir Jón Gunnar.

Í stað flugeldasýningarinnar verður markmiðið að kveikja á eitt þúsund kertum sem raðað er upp kirkjutröppur Akureyrarkirkju og er næsta víst að það verður ekki síður mikilfengleg sjón en flugeldasýning. Björgunarsveitin Súlur verður fólki innan handar við að raða kertunum og mun hvert kerti kosta 500 krónur. „Allur ágóði mun renna til stríðsfórnarlamba á Gaza-svæðinu. Það er ekki verið að taka afstöðu með hinum eða þessum en með þessu er í það minnsta verið að taka afstöðu með friði og það er mjög mikilvægt,“ segir Jón Gunnar og bætir við að oft og tíðum sé samheldni og samkennd vanmetin á sama tíma og fólk er upptekið af því að skemmta sér.

„Auðvitað ætlum við að skemmta okkur alla helgina en augnablikin eru svo dýrmæt ef við náum samheldni og samkennd í tíu mínútur þar sem við stöldrum aðeins við og hugleiðum hvort við kunnum að meta að við búum í frábærum og friðsælum bæ og hvort við getum gert betur á einhvern hátt. Það merkilega við þetta er að jafnvel bæjarhátíð á norðurhveli jarðar getur gert heiminn örlítið betri en hann er í dag,“ segir Jón Gunnar Þórðarson, annar skipuleggjenda Akureyrarvöku sem fram fer um næstu helgi.

Akureyrarvaka 2013
Akureyrarvaka 2013
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert