Þurfti að loka sökum veikinda

Augustin rak áður Næsta bar.
Augustin rak áður Næsta bar. Kristinn Ingvarsson

Veitinga- og skemmtistaðnum Kaffi list, sem opnaður var þann 15. maí síðastliðinn, hefur verið lokað. Spænski veitingamaðurinn Augustin Navarro Cortés, hafði tekið á leigu húsnæði á Klapparstíg 38 undir veitingastaðinn, en neyddist til að loka honum sökum veikinda. „Ég lokaði í júlí,“ segir Augustin. „Ég varð smá lasinn og varð að hvíla mig,“ bætir hann við, en hann taldi það ekki æskilegt hafa staðinn opinn á meðan hann gengi í gegnum veikindin.

Húsnæðið, sem lengst af hýsti Pasta Basta, Basil & Lime og Gamla vínhúsið, stendur núna autt. „Ég skilaði lyklunum en veit ekki hvað verður um húsnæðið,“ segir Augustin.

Hyggst hugsanlega halda áfram í rekstri eftir veikindin

Augustin átti og rak hinn sívinsæla stað Næsta bar, en lokaði honum í marsmánuði. Kaffi list var í svipuðum anda og Næsti bar, en þar var einnig boðið upp á tapas og smárétti. Augustin opnaði Kaffi list upprunarlega árið 1992 en lokaði staðnum árið 1999. Hann opnaði Næsta bar árið 2008, og var hann einn vinsælasti skemmtistaður bæjarins.

„Ég er að hvíla mig núna og svo veit ég ekki hvað ég geri eftir það. Ég fer kannski að leita að öðrum rekstri,“ segir Augustin. „Ég ætla að reyna að opna eitthvað, ekki strax samt. Ég þarf að bíða og hvíla mig í bili,“ bætir hann við, en hann hefur átt við hjartaveikindi að stríða að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert