41 kona í stað 45

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

Frávísunarkrafa verjanda lögreglumannsins í LÖKE málinu svokallaða var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Við upphaf fyrirtöku var gerð grein fyrir því að breyting hefði verið gerð á fyrri ákærulið, en þannig er lögreglumanninum nú gefið að sök að hafa flett upp 41 konu í málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra LÖKE, en ekki 45 eins og áður kom fram.

Verj­andi manns­ins fór fram á mál­inu yrði vísað frá, en maður­inn er ákærður fyr­ir tvö brot í op­in­beru starfi. 

Taldi verjandi skýrleika ákæru ekki vera í samræmi við greinar sakamála, annmarka á verknaðarlýsingu og ágalla á rannsókn varða frávísun. Þá hafi varalögreglustjóri á Suðurnesjum, sem falin var rannsókn, verið vanhæf til að stýra henni og auk þess hafi handhafi ákæruvalds hafi verið vanhæf til að gefa út ákæru.

Fyrri ákæru­liður teng­ist meint­um óeðli­leg­um flett­ing­um í mála­skrár­kerfi lög­regl­unn­ar, LÖKE, á tíma­bil­inu 7. októ­ber 2007 til 16. nóv­em­ber 2013. Maður­inn er sakaður um að hafa mis­notað stöðu sína sem lög­reglumaður þegar hann fletti upp nöfn­um 41 konu í kerf­inu og skoðaði upp­lýs­ing­ar um þær, án þess að flett­ing­arn­ar tengd­ust starfi hans í lög­regl­unni.

Í síðari ákæru­lið er hann sakaður um að hafa þann 20. ág­úst 2012 sent tölvu­skeyti á sam­skipt­asíðunni Face­book um af­skipti sín af ung­um manni í starfi sínu sem lög­reglumaður, sem átti að fara leynt.

Ann­ars veg­ar er maður­inn ákærður fyr­ir brot á 139. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga nr. 19/​1940 og hins veg­ar brot á 1. mgr. 136. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga nr. 19/​1940. 

Segir annmarka á ákæru torvelda málsvörn

Verjandi mannsins, Garðar Steinn Ólafsson hdl., sagði annmarka á ákæru sérstaklega áberandi í fyrri ákærulið, þar sem ekki væri tekið fram hvar og hvenær meint brot hefðu átt sér stað. Þar sem lögreglumaðurinn hefði sinnt starfi sínu á fleiri en einni starfsstöð og í fleiri en einni stöðu væri þetta til þess fallið að torvelda málsvörn. Einnig sagði hann nauðsynlegt að þessar upplýsingar lægju fyrir í ákæru, t.d. þegar tekið væri tillit til mögulegrar fyrningar meintra brota.

Þá sagði hann annmarka á verknaðarlýsingu stafa að miklu leyti af ágalla á rannsókn. Lögreglumaðurinn hafi verið handtekinn fyrir að deila upplýsingum með tveimur öðrum mönnum á lokuðum facebook hóp og rannsókn beinst að því.

Í ljós hafi síðan komið að engum trúnaðarupplýsingum hefði verið deilt á umræddum facebook hóp, en þó verið farið yfir allar samræður ákærða við vini sína á samskiptamiðlum, án þess að tilefni þess lægi skýrt fyrir.

Aldrei ákært fyrir slíkt brot áður

Þá taldi hann ekki skýrt hvernig meint brot féllu undir 139. gr. Almennra hegningarlaga, enda hefði lögreglumaður aldrei áður verið ákærður fyrir meðferð slíkra upplýsinga hérlendis.

Garðar sagði jafnframt að framlögð skjöl frá tæknideild lögreglunnar bæru það ekki með sér að rannsakendum hefði verið uppálagt að safna upplýsingum um hvort uppflettingar lögreglumannsins hefðu tengst starfi hans, og ekki hefði verið gerð rannsókn á því hvort málin hefðu t.d. verið opnuð í tengslum við mál annarra málsaðila.

Telur varalögreglustjóra og sækjanda vanhæfa

Einnig taldi Garðar varalögreglustjóra á Suðurnesjum, sem falið var að fara með rannsókn málsins, ekki hæfan til að fara með slíka rannsókn. Þannig komi fram í skjali að umræddur varalögreglustjóri hafi sex mánuðum áður átt fund með vinkonu sinni þar sem rætt hefði verið um meint brot lögreglumannsins, án þess að sá fundur hefði verið skráður eða tekin niður skrifleg kæra. Þá hafi varalögreglustjóri á sama tíma komist yfir afrit af Facebook samræðum manna sem á þeim tíma lágu ekki undir grun um nein glæpsamleg athæfi og síðan brotið á friðhelgi þeirra með því að lesa umrædd samtöl.

Garðar taldi ennfremur sækjanda í málinu vera vanhæfan, þar sem hann hefði komið fram sem rannsakandi við meðferð málsins. Í nafni hans hafi verið ákveðið að höfða mál þar sem þrír menn voru handteknir og tölvur og gögn handlögð. Ekkert hafi síðan verið hæft í ásökunum um deilingu á trúnaðarupplýsingum úr LÖKE. Sagði hann fyrir hendi vera atvik eða aðstæður sem gæfu tilefni til að draga óhlutdrægni sækjanda í efa.

Þá taldi Garðar einnig annmarka vera á ákærulið tvö, en þar kæmi ekkert fram um þau afskipti sem lögreglumaðurinn hefði haft af aðilanum, og ekki væri heldur tiltekin ástæða þeirra afskipta.

Skýrt hvað maðurinn er ákærður fyrir

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari fór fram á það fyrir hönd ákæruvaldsins að frávísunarkröfu verjanda yrði hafnað. Sagði hún liggja skýrt fyrir í verknaðarlýsingu fyrir hvað maðurinn væri ákærður, að fletta upp nöfnum 41 konu í LÖKE og afla sér upplýsinga um þær án þess að þær tengdust störfum hans sem lögreglumanns.

Þá sagði hún að það hvort ákærði hafði ástæðu til að fletta upp þessum nöfnum eða ekki væri sönnunarlegt atriði sem sannað yrði við flutning málsins. Ekki væri hægt að sjá að það kæmi niður á vörnum ákærða hvernig ákæra væri sett fram.

Þá ítrekaði hún að lögreglumaðurinn neitaði því ekki að hafa flett konunum upp, en hvar hann gerði það skipti ekki máli og væri aukaatriði. Það hvort um sé að ræða einstök tilvik eða framhaldsbrot væri einnig málflutningsatriði, sem og það hvort einhver brotanna séu fyrnd.

Kolbrún sagði það ekki grundvöll frávísunar að ekki hefði verið ákært fyrir slíkt brot áður og ákæruvaldið myndi fjalla um það í sínum málflutningi hvers vegna brot félli undir 139.gr. almennra hegningarlaga.

Sagði frá því hvar drengurinn átti heima

Hvað varðar annan ákærulið sagði hún alveg ljóst að upplýsingar lægju fyrir um að ákærði hafi haft afskipti af dreng með þroskahömlun sem veittist að honum, í beinu framhaldi hafi ákærði haft samskipti við vin sinn á facebook þar sem hann nafngreindi drenginn og sagði frá því hvar hann ætti heima.

Varðandi meint vanhæfi lögreglufulltrúa og saksóknara sagði hún hér ekki vera um að ræða hefðbundið sakamál, en skýrt væri kveðið á um að embætti ríkissaksóknara annaðist rannsókn brota af þessu tagi og  gæti hann einnig leitað aðstoðar annarra lögregluembætta. Ríkissaksóknari hefði jafnframt ákæruvald þegar kemur að brotum í opinberu starfi. Hún sagði það ekkert nýtt af nálinni að sami aðili stýrði rannsókn og færi með málið fyrir dóm, og það gerði sækjanda ekki vanhæfan að hafa stýrt rannsókninni.

Ekki nóg að vísa einungis til gagna málsins

Í andsvörum við rökstuðningi saksóknara sagði Garðar m.a. að ekki mætti ráða af ákæru sjálfri hvaða uppflettingar væri þar átt við eða hvernig þær væru ekki sambærilegar við hinar tugþúsundir uppflettinga sem hann hefði framkvæmt.

Þá sagði hann skorta að af ákæru sjálfri mætti ráða hvernig uppflettingar lögreglumanns væru saknæmar, en það sem kæmi fram í ákæru ætti að gilda og ekki mætti vísa eingöngu til gagna málsins um atriði sem lögum samkvæmt ættu að koma fram í ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert