Hótaði og hafði börn á sínu valdi

mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir karlmanni sem er grunaður um að hafa haft tvo átta ára drengi á sínu valdi og brotið kynferðislega gegn þeim. Maðurinn skal sæta gæsluvarðhaldi til 19. september.

Í úrskurði héraðsdóms, sem féll 23. ágúst sl., segir að sterkur grunur sé uppi um að maðurinn hafi með hótun fengið drengina inn í íbúð sína þar sem hann hafi haft þá á sínu valdi um stund þann 13. ágúst sl. Annar pilturinn heldur því fram að maðurinn hafi beitt þá kynferðislegu ofbeldi. Hann staðhæfir einnig að drengirnir hafi ítrekað spurt manninn hvort þeir mættu fara heim en hann hafi sagt þeim að þegja. Að lokum hafi hann látið þá heita því að segja ekki frá því sem hefði gerst. 

Fram kemur í úrskurðinum að læknir hafi skoðað drengina og sést hafi áverkar á þeim báðum. 

Sýslumaður segir að  mjög sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið brot gegn drengjunum og að þau séu svo svívirðileg í almannaaugum að valda myndi óróleika ef hann yrði látinn laus.

Maðurinn mótmælti kröfunni og krafðist þess að henni yrði hafnað. Hann sagði ósannað að sterkur grunur léki á að hann hefði framið brot sem uppfylltu skilyrði um tíu ára refsiramma. 

Héraðsdómur segir að sterkur grunur sé uppi um að maðurinn hafi með hótun fengið drengina inn í íbúð sína þar sem hann hafi haft þá á sínu valdi um stund. Líta verði svo á að sterkur grunur leiki á að maðurinn hafi framið afbrot sem varðað geti tíu ára fangelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert