Jökulsárlón baðað flugeldum

Hin árlega flugeldasýning í Jökulsárlóni var haldin síðastliðið laugardagskvöld í blíðskaparveðri. Ferðaþjónustan Jökulsárlóni og Björgunarfélag Hornafjarðar standa að sýningunni í samvinnu við Ríki Vatnajökuls.

Upphaf sýningarinnar má rekja til uppskeruhátíðar starfsmanna á svæðinu en hún var fyrst haldin árið 2000. Síðan þá hefur hún heldur betur undið upp á sig og mæta á annað þúsund manns til að berja sýninguna augum. Áhorfendur eru mestmegnis erlendir ferðamenn en heimamenn og fólk hvaðanæva af landinu gerir sér gjarnan ferð í lónið til að mæta á sýninguna.

Sýningin stendur yfir í hálftíma og þykir einstök á heimsvísu og stórkostleg upplifun sé skyggnið gott. Björgunarsveitarmenn byrja á því að raða friðarkertum á ísjaka fyrir sýninguna og sigla svo milli ísjaka til að kveikja í tertum og öðrum flugeldum.

Aðgangseyrir á sýninguna er 1.000 kr. og rennur ágóðinn til Björgunarfélags Hornafjarðar.

Hér má sjá myndband af sýningunni séð frá lofti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert