Loksins prestur eftir langa bið

Davíð Þór Jónsson, nýskipaður héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi.
Davíð Þór Jónsson, nýskipaður héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi. mbl.is

„Ég hef oft sótt um þótt ég vissi að líkurnar á að fá starfið væru hverfandi,“ segir Davíð Þór Jónsson, nýskipaður héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands fyrir fimm árum og hefur loksins fengið brauð innan þjóðkirkjunnar.

Davíð Þór hefur komið víða við á sinni starfsævi. Hann steig fyrst á svið í Hafnarfirði árið 1986 í leikritinu Fúsi froskagleypir og gerði garðinn frægan með leikfélagi bæjarins næstu árin.

Hann hefur starfað sem þýðandi, skáld, skemmtikraftur, dagskrárgerðarmaður og handritshöfundur. Davíð Þór hefur til að mynda gegnt starfi spurningahöfundar, dómara og spyrils í Gettu betur. Hann var hluti af Radíusbræðrum og ritstýrði tímaritinu Bleikt og blátt í fjögur ár.

Hikaði ekki við að sækja um

Eftir að Davíð Þór útskrifaðist frá HÍ hefur nafn hans oftar en ekki birst á lista yfir umsækjendur um stöðu prests eða sóknarprests innan þjóðkirkjunnar. Þau sem þegar hafa verið vígð, gegnt störfum sem prestar eða sóknarprestar og jafnvel aflað sér menntunar og reynslu á öðrum sviðum standa feti framar en þau sem aðeins hafa lokið BA-prófi í guðfræði og því þurfti guðfræðingurinn fjörugi að bíða í nokkur ár eftir starfi.

„Ég vissi að óvígður og nýútskrifaður guðfræðingur ætti ekki möguleika á öllum störfunum sem auglýst voru. Ég lét það aftur á móti ekki á mig fá og hikaði ekki við að sækja um,“ segir Davíð Þór í samtali við mbl.is.

Hann tekur við starfi héraðsprests í Austurlandsprófastdæmi hinn 1. nóvember nk. af sr. Þorgeiri Arasyni, sem skipaður var sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli fyrr á þessu ári. Davíð Þór gegndi starfi fræðslustjóra í prófastsdæminu í hálft ár árið 2012 og verður því á kunnuglegum slóðum.

„Þetta er starf sem ég þekki og gegndi að hluta til á sínum tíma. Ég þekki umhverfið og starfið og það var í gegnum þessa starfsreynslu mína sem ég sannfærðist um mína innri köllun og upplifði mikla ánægju af starfinu.“

Fjölbreytt og krefjandi starf

Davíð Þór segir að starfið verði fjölbreytt. Hluti starfsins felst í því að sinna afleysingum og þá mun hann einnig hafa yfirsýn yfir það sem prestar prestakallsins starfa við hverju sinni. 

Hann mun einnig skipuleggja æskulýðsstarf, hafa umsjón með kirkjumiðstöð Austurlands á Eiðum og létta undir með sókarprestsskyldum prófasts. „Þetta verður mjög fjölbreytt starf, mörg minni störf í stað fárra stærri starfa.“

Undanfarin ár hefur Davíð Þór aðallega starfað sem þýðandi við talsetningar, fyrir bókaforlög og fleira. Auk þess hefur hann starfað við afleysingar, til að mynda við fræðslu, aðallega á fermingarnámskeiðum í Vatnaskógi og þar er hann einmitt staddur þegar blaðamaður nær tali af honum.

„Mér líður alltaf afskaplega vel hér í Vatnaskógi. Hér er lítið og stopult internet og maður nýtur þess að vera með krökkunum og ná til þeirra.“

Fræðari af ástríðu

En mun Davíð taka eitthvað nýtt með sér inn í starfið? „Ég er fræðari af ástríðu. Nýjum mönnum fylgja alltaf nýjar áherslur. Það er ekki mjög góð hugmynd að koma með fullt af fastmótuðum hugmyndum heldur leyfa þeim að fæðast eftir því sem maður lærir á umhverfið,“ segir Davíð Þór.

Hann telur þó líklegt að hann muni leggja meiri áherslu á fullorðinsfræðslu. „Kirkjan sinnir börnum, unglingum og gamla fólkinu mjög vel. Með mér yrði gert eitthvað meira til að höfða til fullorðinna.“

Davíð Þór á ættingja á Austurlandi og hlakkar til að flytja þangað. „Mér hefur alltaf liðið vel á Austurlandi. Það var þar sem ég sannfærðist um mína innri köllun.“

Davíð Þór mun meðal annars sjá um skipulagningu æskulýðsstarfs.
Davíð Þór mun meðal annars sjá um skipulagningu æskulýðsstarfs. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert