Myndast við eldgos eða jarðhitavirkni

Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð var virkjuð í kvöld.
Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð var virkjuð í kvöld. mbl.is/Júlíus

Vísindamenn munu fljúga með TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, yfir norðanverðan Vatnajökul kl. 9 í fyrramálið. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að vænta megi frétta af fluginu upp úr klukkan 11 á morgun.

Í nýjustu stöðuskýrslu almannavarna segir, að vísindamenn hafi orðið varir við breytingar í norðvestanverðum Vatnajökli. Farið var í vísindamannaflug með TF-SIF yfir jökulinn í dag. Markmiðið með ferðinni var að greina frekar svæðið þar sem jarðskjálftahrinan hefur verið undanfarna daga.

Í fluginu sáust þrír sigkatlar um 4 – 6 km að lengd, 1 km á breidd og 15-20 m djúpir við suðaustanverða Bárðarbungu. Ljóst er að þeir hafa myndast eftir að flogið var þarna yfir á laugardag. Katlarnir eru ekki á þekktu sprungusvæði við Bárðarbungu og ekki er talið að þeir séu tengdir kvikuganginum sem verið hefur að myndast undanfarna daga. Svæðið er við vatnaskil Jökulsár á Fjöllum og Grímsvatna og þar er 400 til 600 metra þykkur ís. Um 30 milljónir rúmmetrar af vatni hafa ekki komið fram.

Ekki hefur enn mælst breyting í rennsli Jökulsár og rennsli hennar eðlilegt miðað við árstíma. Merki er um að vatnsborð í Grímsvötnum hafi hækkað síðustu daga en óljóst hvort að það er tengt sigdældunum. Ekki hafa mælst teljandi skjálftar á þessu svæði og enginn órói er á jarðskjálftamælum. Sigdældir af þessu tagi myndast við eldgos eða jarðhitavirkni undir jökli. Töluverð óvissa er um atburðarás.

Mjög greinilega ummerki um atburðina er að finna í Holuhrauninu norðan jökuls og út á sandinn. Um 5 km langur og 1 km breitt sig hefur myndast fyrir ofan kvikuganginn. Bendir það til þess að kvikugangurinn liggi mun ofar en hingað til hefur verið talið. Örlitilir sigkatlar hafa einnig myndast í jaðri Dyngjujökuls. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert